Sjálfsmark Perez tryggði Leicester sigurinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sjálfsmark Ayoze Perez tryggði Leicester stigin þrjú þegar liðið mætti á St. James's Park í Newcastle í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Leikurinn byrjaði vel fyrir heimamenn þegar Joselu kom þeim yfir á fjórðu mínútu leiksins eftir frábæran undirbúning Dwight Gayle. Newcastle hafði ekki tekið eins stuttan tíma í að skora mark í ensku úrvalsdeildinni í fjögur ár, eða síðan Loic Remy skoraði gegn Norwich eftir tvær mínútur í nóvember 2013.

Riyad Mahrez nýtti sér varnarmistök Newcastle og jafnaði leikinn á 20. mínútu áður en Demarai Gray kom Leicester yfir eftir klukkutíma leik.

Það leit allt út fyrir að Gayle myndi verða bjargvættur Newcastle eftir að hann jafnaði leikinn á 73. mínútu með föstu skoti rétt fyrir utan teiginn, þar til Perez setti boltann í eigið net. Jamie Vardy átti sendingu inn á Shinji Okazaki, sem var einn á móti markmanni. Perez náði að komast fyrir Okazaki en það gekk þó ekki betur en svo að hann setti boltann í netið sjálfur. Óheppilegt fyrir Perez, en hann getur huggað sig við það að Okazaki hefði að öllum líkindum skorað hvort sem er.

Leicester vann því sinn þriðja sigur í röð í ensku úrvalsdeildinni. Þeir fara með honum upp fyrir Watford í áttunda sæti deildarinnar á 23 stigum. Newcastle situr hins vegar sem fastast í 16. sætinu með 15 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira