Liverpool missti unnin leik niður í jafntefli | Sjáðu mörkin

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Grannaliðin Liverpool og Everton skildu jöfn, 1-1, á Anfield í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti en augljóst var að leikplan nýs þjálfara Everton, Sam Allardyce, var að sitja til baka og spila uppá jafnteflið.

Þrátt fyrir að vera mun meira með boltann í fyrri hálfleik gekk Liverpool illa að opna þétta vörn Everton. Allt þar til að markahæsti leikmaður deildarinnar, Mohamad Salah, kom þeim yfir á 42. mínútu með glæsilegu einstaklingsframtaki.

Vann hann boltann rétt fyrir utan teig, snéri sér, kom boltanum á baneitraðan vinstri fót sinn og smellti boltanum efst í fjærhornið. Óverjandi fyrir Jordan Pickford í marki Everton.

Fjórum mínútum síðar, rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, voru Liverpool menn klaufar að komast ekki 2-0 yfir.

Í stað þess að renna boltanum á Dominik Solanke eða Salah sem voru fyrir opnu marki, reyndi Sadio Mane að skora sjálfur. Skotið langt framhjá og samherjar hans langt því frá að vera sáttir með senegalann þar.

Sam Allardyce gerði tvær breytingar í hálfleik. Morgan Schneiderlin og Aron Lennon komu inná í stað Baye Oumar Niasse og Tom Davies.

Við þær breytingar jókst sóknarþungi Everton eilítið en það var hins vegar fátt sem benti til þess að þeir fengju eitthvað úr leiknum.

Á 77. mínútu leiksins gerði Dejan Lovren hins vegar afdrifarík mistök sem hleypti gestunum inn í leikinn.

Eftir langan bolta inn fyrir vörn Liverpool stjakaði Lovren við Dominik Calvert-Lewin, sóknarmanni Everton, og benti dómari leiksins, Craig Pawson á vítapunktinn.

Vissulega strangur dómur en Lovren var einfaldlega klaufi að leggja hendur sínar á Lewin.

Reynsluboltinn Wayne Rooney steig á punktinn og gerði engin mistök. Setti boltann í mitt markið og jafnaði metin, 1-1.

Liðin skiptust síðan á að sækja síðustu mínútur leiksins án þess að skapa sér opin færi. Niðurstaðan 1-1 jafntefli og geta heimamenn í Liverpool nagað sig í handarbökin að hafa ekki gert útum leikinn í fyrri hálfleik.

Þá mun Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, eflaust sæta gagnrýni fyrir að hafa byrjað með brasilíumennina Coutinho og Firmino á bekknum í mikilvægum leik sem þessum.

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði allan leikinn í liði Everton. Fékk hann gult spjald í fyrri hálfleik og barðist vel allan leikinn, en líkt og aðrir miðju- og sóknarmenn Everton náði hann ekki að skapa mikið fram á við í leiknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira