Lífið samstarf

Stafrænt ofbeldi eltir fólk út lífið

Júlía Birgisdóttir vill auka skilning á stafrænu kynferðisofbeldi.
Júlía Birgisdóttir vill auka skilning á stafrænu kynferðisofbeldi. MYND/ERNIR
Júlía Birgisdóttir vill auka skilning á því hvað felst í stafrænu kynferðisofbeldi og afleiðingum þess. Myndband var tekið upp af henni án hennar vitundar og samþykkis og sett í umferð. Hún segir stafrænt kynferðisofbeldi elta fólk út lífið. Netið gleymi engu.



"Stafrænt kynferðisofbeldi er þegar einhver tekur upp, dreifir eða skoðar kynferðislegt myndefni í óþökk og án samþykkis þess sem er á því. Fólk þarf að gera sér grein fyrir því að þegar það dreifir eða skoðar slíkt myndefni er það gerandi,“ segir Júlía Birgisdóttir en hún hefur verið ötul talskona gegn stafrænu ofbeldi eftir að hafa upplifað það á eigin skinni. Hún segir að ólíkt mörgu öðru ofbeldi endurtaki stafrænt ofbeldi sig í hvert skipti sem einhver dreifir efninu og einnig þegar það er skoðað. Ofbeldið er því viðvarandi út lífið og getur dúkkað upp á hvaða tímapunkti sem er.



„Fólk skilur ekki að þetta er ofbeldi því í mörgum tilfellum var fólk samþykkt myndatökunni eða sendi sjálft af sér mynd til einhvers sem það treysti, en það þýðir ekki samþykki fyrir dreifingu. Skilningur er að aukast á því hvað þetta hefur miklar afleiðingar og að það er ekki bara eitthvert flipp að senda nektarmynd. Dreifing á slíku myndefni gerir fólk algjörlega varnarlaust og afleiðingarnar eru miklar,“ segir Júlía. Myndband af henni var tekið upp, án hennar vitundar, og hafði verið í dreifingu í tvö ár þegar hún frétti af því.



„Áhrifin sem þetta hafði á mig voru rosaleg og afleiðingarnar eins og af öðru kynferðisofbeldi. Mikill ótti, áfallastreituröskun, kvíði og þunglyndi. Þegar ég komst að tilvist myndbandsins skildi ég ekki af hverju þetta hafði svona slæm áhrif á mig. Ég vissi ekki hvert ég átti að leita. Ég vildi ekki að þetta myndi fréttast og stóð því algerlega ein. Þessi tegund ofbeldis er svo ný með nútímatækni en aðgengi að þjónustu er orðið mun betra og má nefna Bjarkarhlíð sem er fyrir þolendur ofbeldis og Stígamót.“



Júlía segir mikilvægt að stafrænt ofbeldi sé viðurkennt sem slíkt. Orðið „hefndarklám“ eigi ekki að vera til. „Að flokka þetta sem einhvers konar undirflokk af klámi er eins og tala um nauðgun sem tegund af kynlífi. Sú skoðun er sem betur fer á undanhaldi að þolendur stafræns ofbeldis geti sjálfum sér um kennt. Mikilvægt er að fólk skilji hvers vegna þolendur ofbeldis kjósa að stíga fram. Það er ekki til þess að fá vorkunn heldur til þess að vekja athygli á alvarlegu vandamáli. Það er vissulega ekki auðvelt að stíga fram en það er nauðsynlegt. Fólk gerir það til þess að skapa umræðu, auka vitund og skilning á erfiðum málum og knýja fram breytingar.“



Þessi grein birtist fyrst í sérblaði um Stígamót sem fylgdi Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×