Viðskipti innlent

Árleg útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um 32 milljarða

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins SA
Samtök atvinnulífsins segja að ef öll fyrirheit stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verði að veruleika megi búast við 32 milljarða árlegri aukningu útgjalda og 55 milljarða aukningu fjárfestinga- og einskiptisgjalda þegar allt er talið. Þetta kemur fram á vefsíðu samtakanna í dag.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann furðaði sig á útreikningum sem birtust frá SA í gær og Vísir greindi frá þar sem fram kom að opinber útgjöld gætu orðið allt að 87,9 milljarðar króna á ársgrundvelli.

Í frétt sinni gagnrýnir SA að loforð séu ekki tímasett né kostnaðarmetin í sáttmálanum. Það sé galli.

Aukinheldur segir þar að nú sé ekki skynsamlegur tímapunktur til að auka verulega útgjöld ríkissjóðs. Nær væri að halda áfram að lækka skuldir.

„Vaxtakostnaður ríkisins er nú þegar sá þriðji hæsti meðal iðnríkja. Íslenska ríkið greiðir 4 prósent af landsframleiðslu í vexti. Samtök atvinnulífsins hafa lengið kallað eftir aðhaldi í rekstri ríkisins og lýst áhyggjum af mikilli aukningu ríkisútgjalda,“ segir þar.

Þensla vegna aukinna ríkisútgjalda

Tekið er fram að enginn vafi sé á því að fjárfestingarþörf sé rík.

„Augljóst er þó að ekki verður hafist handa við öll verkefnin á sama tíma og að þau munu ekki öll standa yfir allt kjörtímabilið. En SA leggja áherslu á að mikilvægt er að ganga hægt um gleðinnar dyr og hafa borð fyrir báru. SA hafa varað við miklum útgjaldavexti í núgildandi fjármálaáætlun og ítrekað nauðsyn þess að greiða niður skuldir, lækka vaxtakostnað ríkissjóðs og búa í haginn til að geta tekist á við tímabil þegar þrengir að.“

Að lokum kemur fram að þótt vel hafi gengið á þessu ári og tekjur ríkissjóðs reynst meiri en ætlað var sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að útgjaldaaukning ríkisins ýti undir þenslu. Með því gæti launaskrið aukist og erfitt reynst að halda aftur af launakröfum og hækkunum á atvinnumarkaði, á markaði hins opinbera og hins almenna.

„Afleiðingarnar geta orðið þær sem við þekkjum svo vel, enda er hagsaga Íslands uppfull af dæmum um að við höfum farið fram úr okkur í uppsveiflum.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×