Innlent

Sendiherra Bretlands bjartsýnn á samning um gagnkvæm réttindi Breta og Íslendinga

Heimir Már Pétursson skrifar
Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi.
Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi. Skjáskot/Stöð 2
Sendiherra Bretlands á Íslandi vonast til að sams konar samkomulag náist við Íslendinga um réttindi fólks og Bretar náðu við Evrópusambandið í morgun. Óformlegar viðræður við íslensk stjórnvöld hafi verið á jákvæðum nótum og hann reikni með að svo verði áfram með nýrri ríkisstjórn.

Fjölmargir Íslendingar búa og starfa eða eru við nám í Bretlandi. Sömuleiðis eru margir Bretar búsettir á Íslandi og vinna hér. Um stöðu þessa fólks þarf að semja upp á nýtt þegar Bretar ganga úr Evrópusambandinu.

Viðræðum Breta og Evrópusambandsins á að ljúka innan næstu tólf mánaða. En EES samningurinn tryggir fjórfrelsis svo kallaða milli Íslands og sambandsins, meðal annars frjálsa för fólks og fjármagns. Michael Nevin sendiherra Bretlands á íslandi segir samkomulagið í Brussel geta haft jákvæð áhrif á framtíð samskipta Íslands og Bretlands.

En við höfum ávalt sagt skýrt að við myndum vilja framlengja réttindi fólks til Íslands og raunar Noregs líka. Við höfum nú þegar rætt það við íslensk stjórnvöld hvernig við gætum leitt þau mál áfram. Þetta samkomulag gefur okkur tryggari grunn til að halda þeim viðræðum áfram,“ segir sendiherrann.

Talið er að um átta hundruð Bretar búi á Íslandi og um tvö þúsund Íslendingar í Bretlandi. Sendiherrann segir óformlegar viðræður um framtíð samskipta Íslands og Bretlands í tíð fyrri ríkisstjórna hafa verið jákvæðar og hann búist við að svo verði áfram með nýrri ríkisstjórn.

„Og utanríkisráðherrann hefur vissulega verið mjög jákvæður og við höfum unnið mjög vel með honum og embættismönnum hans. Þannig að ég hef fulla ástæðu til að vera bjartsýnn,“ segir Nevin.

Ekki sé þó hægt að ganga frá endanlegum samningum milli Íslands og Bretlands fyrr en Bretar hafi yfirgefið sambandið en hægt sé að undirbúa slíka samninga með viðræðum.  Áfanginn í Brussel í dag sé mikilvægt skref og vonandi náist síðan samkomulag við íslendinga um viðskipti og tollamál. Íslendingar í Bretlandi og Bretar á Íslandi þurfi ekki að óttast um rétt sinn til atvinnu, heilsugæslu og svo framvegis.

„Eins og er og jafnvel áður en við yfirgefum Evrópusambandið muni fólk bókstaflega ekki finna fyrir neinum breytingum á aðstæðum sínum. Þessi réttindi verði tryggð bæði í Bretlandi og á íslandi,“ segir Michael Nevin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×