Handbolti

Sænsku stelpurnar enduðu 29 leikja sigurgöngu norska landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stine Bredal Oftedal og félagar í norska landsliðinu hlupu á vegg í gær.
Stine Bredal Oftedal og félagar í norska landsliðinu hlupu á vegg í gær. Vísir/Getty
Norska kvennalandsliðið var skotið niður á jörðina í kvöld í lokaleik sínum í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handbolta. Eftir fjóra stórsigra í röð tapaði norska liðið með þremur mörkum á móti Svíum, 28-31.

Sænsku stelpurnar tryggðu sér sigurinn í riðlinum með þessum sigri en sænska liðið byrjaði mótið á því að tapa fyrir Póllandi. Liðið hefur síðan unnið fjóra leiki í röð og þær sænsku fögnuðu vel í leikslok.

Stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar voru búnar að vinna 29 leiki í röð eða alla leiki sína síðan í undanúrslitum á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst 2016. Það héldu margir að þær ætluðu bara að fara létt í gegnum mótið en annað kom á daginn.

Sænska liðið sýndi styrk sinn í kvöld og á sama skapi náðu norsku stelpurnar sér ekki á strik.

Tapið þýðir að Noregur mætir Spáni í sextán liða úrslitum en það sem meira er að ef þær vinna þann leik þá þurfa þær líklega að spila við Rússland strax í átta liða úrslitunum. Rússar eru eina liðið sem hefur unnið alla leiki sína á mótinu.

Það leit samt út fyrir að norska liðið ætlaði að fara að stinga af undir lok fyrri hálfleiks þegar liðið komst fjórum mörkum yfir, 18-14.

Sænsku stelpurnar náðu hinsvegar að skora tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks og fylgdu því síðan eftir með að skora þrjú fyrstu mörk seinni hálfleiks og komast yfir, 19-18.

Norska liðið var komið þremur mörkum yfir í seinni hálfleiknum en Svíar tryggðu sér sigurinn með frábærum endaspretti.

Rússar eru eina liðið með fullt hús eftir fimm marka sigur á Dönum í kvöld. 32-27. Serbar tryggðu sér sigur í D-riðlinum með 33-28 sigur á Suður-Kóreu.



Liðin sem mætast í 16 liða úrslitunum eru:

Svíþjóð - Slóvenía

Þýskaland - Danmörk

Ungverjaland - Frakkland

Serbía - Svartfjallaland

Rúmenía - Tékkland

Japan - Holland

Spánn - Noregur

Rússland - Suður-Kórea

Úrslitin á HM kvenna í handbolta í dag:

A-riðill

Angóla - Paragvæ 32-28

Frakkaland - Rúmenía  26-17

Spánn - Slóvenía 33-26

Stig þjóða:

Rúmenía 8

Frakkland 7

Spánn 7

Slóvenía 6

Angóla 2

Paragvæ 0

B-riðill

Argentína - Pólland 20-38

Tékkland - Ungverjaland 29-30

Noregur - Svíþjóð 28-31

Stig þjóða:

Svíþjóð  8

Noregur  8

Ungverjaland 6

Pólland 4

Tékkland  4

Argentína 0

C-riðill

Japan - Túnis 31-13

Brasilía - Svartfjallaland 23-23

Danmörk - Rússland 27-32

Stig þjóða:

Rússland  10  

Danmörk  8

Japan 5

Svartfjallaland 5

Brasilía 4

Túnis 0

D-riðill

Kína - Kamerún 26-26

Holland - Þýskaland 31-23

Serbía - Suður Kórea 33-28

Stig þjóða:

Serbía  8

Holland  7

Þýskaland  7

Suður Kórea  6

Kamerún 1

Kína 1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×