Innlent

Biðja um meiri vinnu í fangelsin

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Samgöngustofa hefur átt samstarf við fangelsið að Litla-Hrauni um árabil og fangar framleiða allar númeraplötur fyrir stofnunina.
Samgöngustofa hefur átt samstarf við fangelsið að Litla-Hrauni um árabil og fangar framleiða allar númeraplötur fyrir stofnunina.
Fangelsismálastofnun auglýsir eftir atvinnu fyrir fanga á Hólmsheiði: Alls konar starfsemi er á Litla-Hrauni og hugmyndirnar skortir ekki. Þó eru ljón í veginum. Forstöðumenn vilja fleira starfsfólk. Fangarnir biðja um hærri laun.

Hversdagslegur blær er yfir Litla-Hrauni þegar blaðamann og ljósmyndara Fréttablaðsins ber að garði á þriðjudagsmorgni í byrjun desember. Kennslustjórinn Gylfi Þorkelsson kemur í hús á sama tíma. Kennsla er að hefjast, en sjö fangar stunda nám á Litla-Hrauni. Við bíðum eftir Halldóri Vali Pálssyni forstöðumanni sem ætlar að sýna okkur atvinnustarfsemina í fangelsinu og röbbum við fangavörð í móttökuhúsinu á meðan við bíðum. Hann segir okkur að fangahópurinn á Litla-Hrauni hafi breyst töluvert á undanförnum árum með þróun í fangelsismálum og opnum úrræðum eins og á Sogni og Kvíabryggju. „Það fylgir því að erfiðasti hópurinn verður eftir hjá okkur. „Strákarnir okkar“ kallar hann þá rétt eins og um landsliðið í handbolta sé að ræða og segir þá vera á öllum aldri allt frá tvítugu og upp undir sjötugt.

Halldór kemur og við röltum af stað. Þegar við komum inn í port hittum við fyrir tvo vörpulega fanga. Annar þeirra heilsar fangelsisstjóranum kumpánlega og minnir á dýnuna sem hann týndi á Sogni. Halldór lofar að kanna málið.

Við erum komin á Litla-Hraun til að forvitnast um atvinnustarfsemi í fangelsum en Fangelsismálastofnun auglýsti á dögunum eftir fleiri verkefnum í fangelsin, einkum fyrir fanga á Hólmsheiði. Þar ætlum við að koma við á leið í bæinn að austan.

Gámaþjónustan hefur séð Litla hrauni fyrir verkefnum um árabil. Raftæki eru rifin og flokkuð niður í plast, gler og málma.
Við byrjum á númeraplötunum en á Litla-Hrauni hefur verið unnið við gerð bílnúmera í áraraðir. „Það er búin að vera mikil aukning í númeraplötunum á þessu ári sem helst í hendur við aukinn innflutning á bílum. Gamla metið var frá 2007, einhverjar 70 þúsund plötur, en við slógum það fyrir nokkrum vikum,“ segir Halldór. Starfsmennirnir í númeraplötunum vilja ekki veita viðtal en óska eftir að koma því á framfæri að launin séu ekki boðleg. „Við vinnum fyrir fjögur hundruð kall á tímann,“ segir annar þeirra. Halldór leiðréttir hann með frammíkalli. Þóknunin er 415 krónur.

Við komum við í þvottahúsinu á leiðinni í skemmuna sem hýsir langtímaverkefni frá Íslenska gámafélaginu. Í þvottahúsinu ganga þvottavélarnar allan daginn og menn grípa í tafl meðan beðið er eftir að vélarnar klári að vinda. Halldór segir okkur að auk verkefna sem koma að utan, séu alltaf nokkur stöðugildi í vinnutengdri starfsemi fangelsisins; þvottar, þrif, snjómokstur, garðsláttur og þess háttar. Svo eru einn til tveir sem vinna í versluninni Rimlakjör sem rekin er á Litla-Hrauni.

„Það er bara mjög einstaklingsbundið,“ svarar Halldór aðspurður um vinsælustu störfin. „Sumir hafa mestan áhuga á númeraplötunum svo eru margir sem vilja komast í útistörfin á sumrin, garðslátt og þess háttar.“

Íslenska gámafélagið hefur sent fangelsinu raftæki til niðurrifs um nokkurra ára skeið. Varan verður verðmætari þegar búið er að rífa tækin í sundur og flokka þau í gler, plast, málm og svo framvegis. Í skemmunni eru einungis útlendir fangar að störfum. Verkstjórinn er á þeirri skoðun að Pólverjar séu duglegustu menn sem unnið hafi á Hrauninu. Verkkunnátta þeirra sé betri en gengur og gerist.

Vinnutíminn í fangelsunum er yfirleitt frá níu til tólf og eitt til þrjú. „Oftast er unnið í fimm tíma á dag, þannig að þetta eru svona 25 til 30 tímar á viku,“ segir Halldór. Hann vísar í reglugerð ráðherra um þóknun fyrir nám og starf fanga. „Það er miðað við að nám og önnur vinna fanga fari að jafnaði ekki yfir 40 stundir á viku. Þetta er fyrst og fremst sett inn fyrir okkur til að við dreifum álaginu milli fanga eins og mögulegt er, þannig að við drekkjum þeim ekki sem eru duglegastir og látum aðra detta í aðgerðarleysi,“ segir Halldór.

Hann segir í kringum 70 prósent fanga á Litla-Hrauni mæta til vinnu eða náms að jafnaði. Um það bil 10 prósent séu óvinnufærir vegna andlegs eða líkamlegs ástands og 20 prósent hafi ýmist ekki áhuga á að vinna eða hafi enn ekki fengið vinnu.

„En þetta er síbreytilegt. Sumar vikur koma kannski þrír til fjórir fangar til okkar og kannski er enga vinnu að fá fyrstu vikuna og næstu vikuna komast kannski tveir þeirra í vinnu og þannig mjatlast þetta svona inn hjá okkur,“ segir Halldór.

Hugmyndaríkur og handlaginn fangi, framleiðir kaffimál úr afgöngum á trésmíðaverkstæðinu á Litla-Hrauni.
Þegar við röltum yfir á trésmíðaverkstæðið spyrjum við Halldór hver séu draumaverkefnin fyrir fangelsið.

„Best er að fá verkefni sem væru ekki unnin nema af því að þau koma til okkar,“ segir Halldór. „Til dæmis verkefni með einhvern samfélagslegan tilgang eins og endurnýtingu eða endurvinnslu þar sem er svona samfélagslegur ávinningur af. Það er mjög skemmtilegt að geta verið í slíkum verkefnum,“ segir Halldór og bendir á að kostur slíkra verkefna fyrir fangelsin sé að þau megi vinna á lengri tíma án tímapressu. „Þetta eru verkefni sem eru í rauninni háð frumkvæði utan úr samfélaginu. Eitthvað sem menn eru að gera inni á vinnustöðum og finnst sárt að horfa upp á einhverja sóun til dæmis. Þá viljum við láta hugsa til okkar,“ segir Halldór.

„Einu sinni duttu okkur til dæmis í hug öll óskilahjólin sem lögreglan safnar saman, að við gætum tekið við þeim, lagað þau og selt svo á hærra verði og ágóðinn færi þá í einhver svona jákvæð útgjöld einhvers staðar.“ Halldór bendir þó á þann vanda að svona verkefni krefjist þess að farmi sé ekið austur til þeirra auk þess sem þau krefjist þess að fangelsið hafi gott geymslupláss.

Halldór segir okkur einnig frá vefsíðu sem er í vinnslu; sölusíðu fyrir ýmsan varning sem unninn er í fangelsunum. Halldór hefur miklar væntingar til síðunnar og bendir á að ný verkefni gætu beinlínis orðið til í kringum síðuna. „Við fengjum kannski fanga til okkar sem er laghentur og með einhverja góða hugmynd eins og þennan litla bíl til dæmis og svo færi bara að rigna inn fyrirspurnum um þennan bíl og þá værum við komin með litla leikfangaverslun,“ segir Halldór um bíl sem starfsmaður á trésmíðaverkstæðinu sýnir okkur. Bíllinn var hannaður af nema við Listaháskóla Íslands. 

Meðal þess sem fangarnir framleiða eru garðbekkir sem hafa rokselst hingað og þangað til vegasjoppa og annarra fyrirtækja og stofnana. Halldór segir vefsíðuna sem er í vinnslu algert lykilatriði í þessu og virðist spenntur að taka hana í gagnið. „Hún getur auðvitað líka skapað sjálfstæða vinnu fyrir fanga til dæmis við að útbúa sendingar, pakka inn og þess háttar tengd störf.“ Halldór segir undirbúning vefverslunar fanga langt kominn. „Vefsíðan er í vinnslu og við erum að leysa tæknileg atriði eins og reikningakerfi og slíkt. Þannig að hún er bara á þröskuldinum.“

Önnur framleiðsluvara á Litla-Hrauni eru jólaskilti sem sveitarfélög í nágrenni fangelsisins hafa keypt. „Svo hafa einhverjir einstaklingar líka séð þetta og rakið sig með það hingað og komið og keypt nokkra kalla,“ segir Halldór.

Jólaskiltin sem framleidd eru á Litla-hrauni, seljast eins og heitar lummur fyrir jólin.
Halldór segir að greiðslur fyrir verkefni, sem utanaðkomandi aðilar kaupa, fari í þóknanir fanganna og annan kostnað af atvinnustarfseminni; tæki, verkfæri efniskostnað og þess háttar.

Svipaða sögu er að segja um bónstöðina á Litla-Hrauni. Viðskiptavinir bónstöðvarinnar eru helst fólk úr nágrenninu; ekki síst eldri borgarar af Suðurlandinu og margir þeirra fastakúnnar.

Það eru ekki ný sannindi að bestu betrunarmöguleikar fanga eru í gegnum nám og starf. Það er því til mikils að vinna að vel sé búið að allri starfsemi í kringum nám og starf í fangelsum. Meðal þess sem skiptir mestu máli er fjöldi og samsetning starfsfólks fangelsa.

Á Litla-Hrauni eru margir litlir vinnustaðir sem allir krefjast viðveru fangavarðar og verkstjórnar.

„Því erfiðari sem fangahópurinn er hvað samsetningu varðar og þar sem menn hafa litla reynslu af vinnu eða litla starfsgetu þeim mun færri vinnuhópa er hægt að hafa,“ segir Halldór.

„Ef við miðum við þá sem eiga gott með að vinna og geta unnið nokkuð sjálfstætt þá erum við með mannskap í það en um leið og við ætlum að fara að sinna þessu eitthvað meira verður það strax erfiðara.“

Halldór dreymir um að geta hagað atvinnustarfseminni eins og á vernduðum vinnustað. „Okkar draumur hefur verið að hafa til dæmis iðjuþjálfa með okkur og líta á þetta meira eins og verndaða vinnustaði .“

Aðspurður segir Halldór stofnunina reglulega herja eftir fjölgun stöðugilda, en þá þurfi líka að velja hvaða bardaga eigi að taka. „Við vorum nú alsæl með það á sínum tíma að ná fleiri stöðugildum meðferðarfulltrúa. En við getum endalaust bætt við okkur og fjölgað fólki í verkstjórn, meðferðarstarfi og svo framvegis.

Halldór bendir á að fangelsiskerfið sé engan veginn samanburðarhæft við Norðurlöndin í þessum efnum.

„Við erum bara hálfdrættingur á við fangelsiskerfin á Norðurlöndunum sem eru sum hver með allt að heilt stöðugildi á hvert fangapláss. Ef við tökum íslenska fangelsiskerfið þá erum við að tala um svona 50 prósent eða í kringum hálft stöðugildi á hvern fanga.

Starfsmenn hinna ýmsu vinnustaða eru að tínast inn í mat þegar við kveðjum Litla-Hraun undir hádegi. 

Fangar af báðum kynjum vinna saman við ýmis verkefni í Vinnusalnum á Hólmsheiði.
Þegar við komum á Hólmsheiði er vinna í fullum gangi í vinnusalnum. Ólíkt vinnustöðum Litla-Hrauns, þar sem einungis karlar afplána, sitja konur og karlar saman hér við pökkun á kærleiksspjöldum; verkefni frá Kirkjuhúsinu.

Fangahópurinn á Hólmsheiði er að mörgu leyti mjög ólíkur hópnum á Litla-Hrauni. Í fangelsinu er sérstök kvennaálma og konurnar eru í rauninni einu fangarnir á Hólmsheiði sem eru í langtímavist. Aðrir fangar eru þar til skemmri tíma enda fangelsið hugsað sem móttökufangelsi. Betrunarstarf á Hólmsheiði er því hugsað með öðrum hætti en í öðrum fangelsum landsins. „Við erum ekki með nein verkstæði hér eins og á Litla-Hrauni. Við erum bara með þennan vinnusal þar sem er hægt að vinna það sem við köllum smáverkefni eða samsetningarverkefni,“ segir Guðmundur Gíslason, forstöðumaður á Hólmsheiði.

„Við erum til dæmis með smáverkefni frá Kirkjuhúsinu og svo pökkum við tímaritinu Glamour. Það er fast verkefni. Og það er stórt upplag sem kemur á vörubrettum með sendiferðabíl og tekur smá tíma.“ Guðmundur segir alla, bæði fanga og starfsmenn, vera ánægða með öll þau verkefni sem fangelsið hafi fengið. „Þessi verkefni sem við höfum fengið hafa öll tekist mjög vel.“

Atvinnuþátttakan á Hólmsheiði er svipuð og á Litla-Hrauni, í kringum 70 prósent.

Aðspurður bendir Guðmundur á að margir séu í mjög slæmu ástandi þegar þeir koma á Hólmsheiði, sem er fyrsti viðkomustaður flestra sem koma til afplánunar. „Hér er náttúrulega töluvert hátt hlutfall af föngum sem eru nýkomnir inn og hafa verið í vondum málum og jafnvel mikilli neyslu. Þeir þurfa bara að byrja á að koma hausnum á sér í lag,“ segir Guðmundur.

Vel virðist fara á með starfsmönnum í vinnusalnum á Hólmsheiði en um það bil sem ljósmyndari og blaðamaður Fréttablaðsins hugsa sér til hreyfings, stendur einn fanganna upp frá vinnunni og kveður félagana; segist hafa lokið afplánun. Samfangar kveðja með virktum. „Sjáumst síðar.“

Fangelsið á Hólmsheiði kallar eftir fleiri verkefnum fyrir fanga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×