Viðskipti innlent

Hækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands

Anton Egilsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/Anton brink
Bandaríska matsfyrirtækið Fitch Ratings tilkynnti í dag að það hefði hækkað lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands á langtímaskuldbindingum í innlendum og erlendum gjaldmiðli í „A“ úr „A-“. Þetta kemur fram fram í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Fram kemur að helstu drifkraftar að baki hækkuninni séu efnahagsstöðugleiki, batnandi ytri staða þjóðarbúsins og skuldalækkun hins opinbera ásamt öflugum hagvexti. Þá eru horfur fyrir einkunnina sagðar stöðugar.

„Þetta eru ánægjulegar fréttir fyrir nýja ríkisstjórn. Hækkun lánshæfiseinkunnarinnar staðfestir trú sérfræðinga Fitch á styrk hagkerfisins og á þau markmið sem sett eru í sáttmála ríkisstjórnarinnar um að áfram verði hlúð að stöðugleika í efnahagsmálum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, en hækkun Fitch nú er fjórða hækkunin á lánshæfi ríkissjóðs á árinu 2017.

Bjarni segir jafnframt að hækkunin muni hafa jákvæð áhrif á vaxtakostnað ríkisins og annarra aðila sem taka lán, þar með talið banka, orkufyrirtækja og annarra innlendra fyrirtækja, sem að lokum mun skila sér í bættum hag heimila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×