Innlent

Sveinki færir grænlenskum börnum jólapakka frá Íslandi

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Íslenski jólasveinninn Stekkjastaur heldur til Kulusuk eftir helgi þar sem hann hyggst færa grænlenskum börnum jólagjafir. Gjafanna er aflað af félagsmönnum í skákfélaginu Hróknum, en þeir voru í óða önn að pakka inn í dag. Undanfarin fimmtán ár hafa félagar í Hróknum glatt grænlensk börn með gjöfum um jólin. Verkefnið er unnið í samstarfi við ýmis fyrirtæki sem leggja í púkk auk þess sem flogið er frítt með gjafirnar og sveinka.  

Gjöfunum var pakkað inn í vöruskemmu við Geirsgötu nú síðdegis, en þar var fólk önnum kafið við að tryggja að hægt væri að koma glaðningum út fyrir jólin. Margir hafa lagt söfnuninni lið, en í öllum pökkunum má meðal annars finna handprjónaðar flíkur sem hópur kvenna hefur unnið að því að prjóna í Gerðubergi í Breiðholti í hverri viku. Um 60 konur hafa tekið þátt í verkefninu, en Henný Níelssen, einn forsvarsmanna verkefnisins, segir hlýja vettlinga koma sér vel á Grænlandi. Þannig sé að jafnaði afar kalt, en mörg þeirra barna sem gjafirnar þiggja búi við talsverða fátækt. Þau gleðjist því mjög þegar komið er með pakkana.

Frétt Stöðvar 2 um málið og viðtal við Henný Níelssen má sjá í spilaranum að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×