Enski boltinn

Tveir risa grannaslagir í enska boltanum│ Myndband

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það er sannkallaður ofurdagur í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar 16. umferðin klárast með þremur leikjum.

Dagurinn byrjar á heimsókn Arsenal á St. Mary's leikvanginn í Southampton. Skytturnar í Arsenal geta farið upp fyrir Liverpool í fjórða sæti deildarinnar með sigri. Southamtpon siglir um miðja deild, í 12. sæti með 17 stig.

Nágrannarnir í Liverpool og Everton munu berjast um Bítlaborgina. Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hafa unnið síðustu tvo leiki sína í deildinni og líta mun betur út eftir komu Sam Allardyce til félagsins.

Jurgen Klopp stýrði sínum mönnum til stórsigurs í Meistaradeild Evrópu í vikunni, en býst þó ekki við því að geta skorað sjö mörk þegar Everton mætir á Anfield.

Nokkrum kílómetrum austar klárast svo umferðin á öðrum grannaslag þegar Manchester-liðin berjast um montréttinn þar í borg.

Liðin sitja á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, City með átta stiga forskot á United. City tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu í vikunni, en liðið hefur enn ekki tapað leik í deildinni. Takist United ekki að breyta því getur Pep Guardiola sett aðra hendina á Englandsmeistaratitilinn.

Allir leikirnir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport HD og strax að Manchester-slagnum loknum fara strákarnir í Messunni yfir herlegheitin.

12:00 Southampton - Arsenal

14:15 Liverpool - Everton

16:30 Manchester United - Manchester City

18:30 Messan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×