Lífið

Fimm menn reyndu að ræna úri Eiðs Smára

Birgir Olgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen í einum af fjölmörgu leikjum sínum með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu.
Eiður Smári Guðjohnsen í einum af fjölmörgu leikjum sínum með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu. Vísir/Getty
Knattspyrnukappinn fyrrverandi Eiður Guðjohnsen greinir frá því á Twitter-síðu sinni að fimm menn hafi veist að honum í Barcelona í gærkvöldi. Voru þeir að sögn Eiðs á höttunum eftir úri hans.

„Ef þeir vildu virkilega vita hvernig tímanum leið, þá hefðu þeir bara átt að spyrja,“ segir Eiður Smári á Twitter. Hann merkir færsluna #nojoke til marks um að honum sé fúlasta alvara jafnvel þótt hann sé að slá á létta strengi.

Eiður birti mynd af sér á Instagram í gærkvöldi þar sem hann var á tónleikum íslensku sveitarinnar Kaleo á tónleikastaðnum Razzmatazz í Barcelona.

Eiður var á tónleikunum með yngstu sonum sínum sem eru búsettir í Barcelona en Eiður spilaði með knattspyrnuliði Barcelona á árunum 2006 til 2009.

Hann greindi frá því í viðtali við Guðmund Benediktsson fyrr í haust að hann hefði spilað sinn síðasta keppnisleik á knattspyrnuferlinum.

Í dag skellti Eiður Smári sér á viðureign Barcelona og Anaitasuna í efstu deild spænska handboltans. Aron Pálmarsson leikur sem kunnugt er með Barcelona. Heimamenn unnu tólf marka sigur í toppslag deildarinnar 38-26.

Ekki náðist í Eið Smára við vinnslu fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×