Erlent

Segja áríðandi að eiga einlægt samtal við Norður Kóreu til að ná friðsamlegri lausn

Birgir Olgeirsson skrifar
Jeffrey Feltman, erindreki Sameinuðu þjóðanna, ásamt Ri Yong Ho, utanríkisráðherra Norður Kóreu.
Jeffrey Feltman, erindreki Sameinuðu þjóðanna, ásamt Ri Yong Ho, utanríkisráðherra Norður Kóreu. Vísir/EPA
Erindreki Sameinuðu þjóðanna sagði háttsettum embættismönnum í Norður Kóreu að nauðsynlegt væri að halda samskiptum opnum til að forðast stríð.

Þetta kom fram í tilkynningu frá Sameinuðu þjóðunum í tilefni þess að Jeffrey Feltman, erindreki Sameinuðu þjóðanna, sneri aftur úr opinberri heimsókn sinni til Norður Kóreu.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC gerir tilkynningu Sameinuðu þjóðanna skil á vef sínum en þar segir að embættismenn í Norður Kóreu hafi fallist á að vera í reglulegum samskiptum við Sameinuðu þjóðirnar.

Mikil spenna hefur ríkt vegna flugskeytaprófana Norður Kóreu í síðustu viku. Yfirvöld í Norður Kóreu sögðu að um væri að ræða öflugasta flugskeytið sem prófað hefði verið þar í landi og að tilraunin hefði heppnast vel. Er því haldið fram að flugskeytið geti náð meginlandi Bandaríkjanna.

Feltman hitti utanríkisráðherra Norður Kóreu, Ri Yong Ho, og varaforsætisráðherra landsins, Pak Myong Guk.

Í tilkynningunni kemur fram að Feltman hefði lagt ríka áherslu á að Sameinuðu þjóðirnar myndu beita sér fyrir friðsamlegri lausn í málinu. Til þess þyrfti einlægt samtal við yfirvöld í Norður Kóreu og þar þyrfti að hafa hraðar hendur.

Feltman var í Norður Kóreu í fjóra daga en hann ræddi ekki við fréttamenn þegar hann kom til Peking í Kína í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×