Erlent

Trump segir að reka ætti blaðamann sem bað hann afsökunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Donald Trump í Pensacola í gær.
Donald Trump í Pensacola í gær. Vísir/Getty
„Það ætti að reka hann,“ segir forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, um blaðamann bandaríska dagblaðsins Washington Post sem hefur beðist afsökunar á því að deilt mynd sem átti að sýna að fáir hafi verið viðstaddir ræðu forsetans í Flórída í gærkvöldi.

Ræðuna hélt Trump í Pensacola-höllinni þar sem hann hvatti kjósendur til að veita Repúblikanum Roy Moore atkvæði sitt.

Eftir kosningafundinn birti Trump tíst þar sem hann þakkaði fyrir sig og sagði áhorfendastúkurnar hafa verið „pakkaðar“.

Töluverður fjöldi var samankominn þegar Trump hélt ræðu sína í Pensacola-höllinni í gær.Vísir/Getty
Skömmu síðar fór mynd í deilingu af kosningafundinum sem átti að sýna fram á að staðhæfing Trumps um mætingu á kosningafundinn hefði ekki verið sannleikanum samkvæm. Sú mynd var hins vegar tekin fyrr um kvöldið, áður en Trump hélt ræðu sína.

Trump minntist á þetta á Twitter í dag þar sem hann sagði blaðamann Washington PostDave Weigel, hafa deilt þessari mynd sem hafi verið tekin klukkustundum áður en hann mætti á svæðið og þúsundir hafi beðið eftir að komast inn. Hann fór fram á afsökunarbeiðni frá Washington Post og að þessi staðhæfing yrði dregin til baka.

Weigel varð við því, baðst afsökunar og eyddi myndinni. Hann sagði þetta hafa verið slæmt tíst af sinni hálfu, en ekki frétt frá Washington Post.

Trump sagði í kvöld á Twitter að Weigel hefði viðurkennt mistök og fór fram á að hann yrði rekinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×