Viðskipti erlent

Þriðjungslíkur á að vél taki starfið þitt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Angela Merkel má gera ráð fyrir því að hlutfallslega fleiri landar hennar muni missa vinnuna heldur en Narendra Modi.
Angela Merkel má gera ráð fyrir því að hlutfallslega fleiri landar hennar muni missa vinnuna heldur en Narendra Modi. Vísir/Getty
Allt að 800 milljón manns munu hafa misst vinnuna í hendur sjálfvirkra vélmenna árið 2030. Aukin sjálfvirkni mun þannig hafa bein áhrif á næstum fimmtung allra starfa í heiminum næsta áratuginn. Þetta eru niðurstöður umfangsmikillar skýrslu sem ráðgjafastofnunin McKinsey Global Institute kynnti á dögunum.

Rannsóknin tók til 46 ríkja og næstum 800 starfsgreina. Þar kemur fram að um þriðjungur alls vinnuafls í ríkari löndum á borð við Þýskaland og Bandaríkin mun þurfa á róa á önnur mið og að störf sem lúta að matvælaframleiðslu og stjórnun véla muni nær algjörlega hverfa.

Störfum í fátækari löndum, sem ekki hafa bolmagnið til að fjárfesta í dýrum vélum, mun síður fækka. Þannig er áætlað að aðeins 9 prósent vinnuafls í Indland muni missa vinnuna í hendur véla fram til ársins 2030.

Barþjónar geta andað rólega

Í skýrslu McKinsey kemur að sama skapi fram að læknar, lögfræðingar, kennarar og barþjónar ættu ekki að þurfa óttast vélvæðinguna enda muni þeirra störf ekki hverfa á næstunni. Pípulagingamenn, garðyrkjufræðingar og fólk í ummönnunarstörfum getur einnig andað rólega.

Hins vegar ættu hvers kyns aðstoðarmenn, sem og bókhaldarar, mögulega að fara að hugsa sér til hreyfings.

Vélmennavæðingunni muni þó fylgja ýmis störf að mati rannsakendanna, rétt eins og gerðist með tilkomu heimilistölvunnar þegar fjöldamörg þjónustu- og viðhaldsstörf spruttu fram á sjónarsviðið.

Engu að síður er það mat skýrsluhöfunda að stjórnvöld, jafnt í ríkari sem fátækari löndum, ættu að huga að endurþjálfun mannauðs - fyrr en síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×