Innlent

Þungbúið og þokusúld

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Íslendingar mega búast við þungbúnu veðri með þokusúld.
Íslendingar mega búast við þungbúnu veðri með þokusúld.

Loftið yfir landinu í dag er ekki aðeins hlýtt heldur einnig rakt. Íslendingar mega því búast við þungbúnu veðri með þokusúld eða rigningarsudda. Í landáttinni austanlands verður hins vegar þurrt að kalla. Sumir vegir eru væntanlega enn hálir, en hlýindin í dag þýða að hálkulíkur fara ört minnkandi.

Að sögn veðurfræðings Veðurstofunnar hefur hlýr loftmassi færst yfir landið. Enn sem komið er hefur vindur hins vegar ekki náð sér á strik.

„Kalda loftið sem réði ríkjum í byrjun vikunnar situr því sums staðar enn eftir, til dæmis er nú í morgunsárið frost í uppsveitum á Suðurlandi og sums staðar á Suðausturlandi. Þetta mun breytast í dag, því allsstaðar mun verða nægur vindur til að blanda hlýja loftmassanum við þann kalda,“ segir veðurfræðingurinn.

Vindáttin í dag er suðvestlæg og mesti vindhraðinn verður á Norðvesturlandi, allhvass vindur á þeim slóðum. Einnig getur orðið byljótt í Eyjafirði við þessar aðstæður - „eins og heimamenn þekkja.“

Það mun svo bæta í rigningu á morgun en vindurinn mun haldast svipaður. Gengur síðan í vestan hvassviðri á landinu annað kvöld en það styttir jafnframt upp að mestu. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast austanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Suðvestan 8-15 m/s, en 13-20 um kvöldið, hvassast um landið norðvestanvert. Úrkomulítið austantil, annars rigning eða súld. Dregur úr vætu um kvöldið. Hiti 4 til 10 stig, hlýjast austast á landinu. 

Á laugardag:
Vestan 13-20 framan af degi, en dregur smám saman úr vindi eftir hádegi. Lítilsháttar skúrir eða él, en þurrt og bjart veður suðaustan og austanlands. Hiti 0 til 5 stig. 

Á sunnudag:
Vestlæg átt, víða 5-10 m/s. Skýjað með köflum og úrkomulítið á landinu. Hiti rétt yfir frostmarki við ströndina, en vægt frost inn til landsins. 

Á mánudag:
Vestlæg og síðar norðlæg átt 8-13. Él norðantil á landinu og einnig vestanlands fram yfir hádegi, en úrkomulaust í annars staðar. Kólnandi veður. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Norðlæg og dálítil él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 12 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.