Innlent

Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar stígur til hliðar

Birgir Olgeirsson skrifar
Sigurður Már Jónsson.
Sigurður Már Jónsson. Vísir/Pjetur
Sigurður Már Jónsson hefur ákveðið að stíga til hliðar sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Sigurður greinir frá þessu á Facebook en þar segir hann að honum þyki rétt að gefa nýjum forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, svigrúm til að manna nýjar stöður.

Sigurður var ráðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar árið 2013, eða þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduð ríkisstjórn undir foryrstu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Þar áður hafði hann starfað við blaðamennsku frá árinu 1985, lengst af á Viðskiptablaðinu þar sem hann var aðstoðarritstjóri og ritstjóri.

Í Facebook-færslunni segir Sigurður ástæðu til að óska landsmönnum til hamingju með þessa nýja ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Í henni verða tveir fyrrverandi forsætisráðherrar sem Sigurður starfaði með sem upplýsingafulltrúi, þeir Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, en Sigurður segir þá mikla heiðursmenn sem gott var að vinna með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×