Innlent

Hjón kæra Garðabæ fyrir að loka vegi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Lokað verður á tengingu milli Herjólfsbrautar og Garðahraunsvegar.
Lokað verður á tengingu milli Herjólfsbrautar og Garðahraunsvegar. vísir/eyþór
Hjón sem búa við Heið­vang í Hafnarfirði hafa kært Garðabæ vegna áforma um að loka vegtengingu á milli sveitarfélaganna.

Í bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála krefjast hjónin þess að deiliskipulag fyrir Garðahraun sem Garðabær samþykkti í haust verði fellt úr gildi hvað snertir lokun vegtengingar milli Herjólfsbrautar og Garðahrauns­vegar.

Hjónin segjast hafa verið meðal þeirra sem árangurslaust hafi mótmælt breytingunni á deiliskipulaginu áður en hún var samþykkt. Segja þau breytinguna verulega íþyngjandi fyrir íbúa hverfisins.

„Ekki hafa verið færð nein rök fyrir að loka tengingunni,“ segir í kærunni. Vegur sem hafi verið lagður fyrir opinbert fé og notaður áratugum saman verði ekki lengur í boði fyrir verulegan hluta þeirra sem noti hann daglega.

„Þetta veldur því að umferð um hverfi kæranda verður þyngri og erfiðari þar sem lokað er á mikilvæga tengingu milli samfélaga. Þetta felur í sér veruleg óþægindi fyrir umrætt hverfi með tilheyrandi afleiðingum,“ segja hjónin í kærunni og nefna lækkun fasteignaverðs á svæðinu sem dæmi um hugsanlega afleiðingu.

„Að mati kæranda er hér verið að opna á þróun sem getur ekki talist heppileg þar sem eitt sveitarfélag fer þá leið að loka vegtengingu við annað bæjarfélag án þess að þurfa að taka á nokkurn hátt tillit til hagsmuna íbúanna í hinu sveitarfélaginu,“ segir áfram í kærunni. Hún var lögð fram í bæjarráði Garðabæjar sem fól Gunnari Einarssyni bæjarstjóra meðferð málsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×