Enski boltinn

Öskubuskuævintýri Burnley er ekki lokið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jóhann Berg og Ashley Barnes fagna um helgina.
Jóhann Berg og Ashley Barnes fagna um helgina. vísir/getty
Gengi Burnley í ensku úrvalsdeildinni í ár er með hreinum ólíkindum. Liðið er í hópi efstu liða deildarinnar sem hafa þegar slitið sig frá liðunum sem eru neðar í töflunni. Það er í raun algjörlega sturlað að Burnley sé með jafnmörg stig og Liverpool og Arsenal. Sem og liðið sé aðeins stigi á eftir Tottenham sem hefur fengið mikið hrós fyrir frábæran leik í vetur.

Það er ekki þykkt veskið hjá Burnley og því eðlilegt að stjóra liðsins, Sean Dyche, sé hrósað mikið. Það er kraftaverki líkast að hans hræódýra lið sé á pari við stærstu og ríkustu lið deildarinnar.

Ekki má heldur gleyma því að Burnley missti tvo lykilmenn frá félaginu síðasta sumar er þeir Michael Keane og Andre Gray voru seldir fyrir tæplega fimmtíu milljónir punda. Mikið högg fyrir lið sem var ekki með breiðan hóp fyrir.

Finna bestu leiðina

Að þessu sinni náði Burnley að skella Swansea, 2-0. Óvenju mikið skorað enda er Burnley aðeins búið að skora tólf mörk í tólf leikjum. Liðið hefur aftur á móti aðeins fengið á sig níu mörk. Allt byrjar þetta með traustum og vel skipulögðum varnarleik.

„Ég stýri mínum liðum þannig að ég reyni að finna bestu leiðina til þess að vinna leiki. Tímabilið er mjög langt en eðlilega er ég mjög ánægður með þessa byrjun,“ sagði Dyche sem er enn orðaður við stjórastarfið hjá Everton þar sem hann er sagður vera efstur á óskalista félagsins og er endalaust spurður út í áhuga Everton á sér og er augljóslega orðinn þreyttur á því. Hann reynir þó að halda umræðunni á sínu liði eins og hann getur. Skiljanlega og er nóg að tala um þar.

Sean Dyche.vísir/getty
„Ég hef aldrei haft áhyggjur af því þegar það er verið að gagnrýna okkar leikstíl. Eina sem ég veit um fótbolta er að maður reynir að finna leiðir að því að vinna leiki með þann mannskap sem maður hefur í höndunum hverju sinni. Það hefur gengið mjög vel hjá okkur það sem af er vetri. Leikmennirnir hafa trú á kerfinu og vinna vel saman í því sem við viljum gera.“

Sefur ekki á verðinum Þó svo staða Burnley sé góð í augnablikinu og liðið sé rúmlega hálfnað á leið sinni að 40 stiga markinu, sem á að tryggja öruggt sæti í deildinni, þá er Dyche ekkert farinn að halla sér aftur og taka því rólega?

„Við vinnum í raunheimum og það væri galið af mér að segja að við myndum vera á þessu flugi áfram eins og ekkert sé eðlilegra. Fram undan eru til að mynda mjög erfiðir útileikir. Ekki bara fyrir okkur heldur hvaða lið sem er í deildinni,“ sagði Dyche með báða fætur neglda við jörðina.

Trúi á það sem við gerum

„Ég trúi samt á það sem við erum að gera og ég hef mikla trú á þeim leikmönnum sem við erum með. Það er mikil eining innan hópsins og trú á því kerfi sem við notum til þess að vinna leiki. Við höfum aldrei verið með einhverjar stórkarlalegar yfirlýsingar um hvað við séum eitthvað frábærir. Við leggjum mjög hart að okkur og tökum hverri áskorun sem við fáum á fótboltavellinum. Eins og ég segi þá er þetta mjög ánægjuleg byrjun en tímabilið er langt og mun reyna mikið á okkur.“

Á meðan Burnley flýgur hátt er sviðsljósið á stjóranum. Hann hefur lítið gefið fyrir áhuga Everton á sér og hugsar um sitt lið.

Eins vel og það gengur hjá Burnley þá er illa komið fyrir Swansea sem er ekki að leika vel og liðið hefur aðeins átt 23 skot að marki í tólf leikjum. Það er ekkert að frétta hjá drengjunum hans Paul Clement.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×