Körfubolti

NBA: Stephen Curry með sinn besta leik á tímabilinu | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Stephen Curry átti flottan leik með Golden State Warriors í NBA-deildinni í nótt en þurfti reyndar að setjast á bekkinn með sex villur þremur mínútum fyrir leikslok og treysta á það að félagar hans lönduðu sigrinum.  Nýliðinn Lonzo Ball hjá LA Lakers náði sinni annarri þrennu á tímabilinu.

Stephen Curry var með 39 stig og 11 fráköst í 118-111 útisigri Golden State Warriors á Brooklyn Nets. Meistararnir í Golden State Warriors voru komnir með 22 stiga forystu í hálfleik en Curry skoraði einmitt 22 stig í fyrri hálfleiknum.





Kevin Durant lék ekki með liðinu í nótt og það leit lengi vel eins og það skipti engu máli enda náði Golden State mest 27 stiga forystu í þriðja leikhluta. Leikmönnum Brooklyn Nets tókst hinsvegar að minnka muninn niður í fjögur stig eftir að Stephen Curry fór útaf með sex villur.

Klay Thompson koma þá til bjargar og skoraði 7 af 23 stigum sínum í leiknum á síðustu tveimur mínútunum. Ísraelsmaðurinn Omri Casspi byrjaði inná í staðinn fyrir Kevin Durant og endaði leikinn með 12 stig og 8 fráköst.

Stephen Curry var auk 39 stig og 11 frákasta einnig með 7 stoðsendingar og 3 stolna bolta en hann hitti úr 4 af 10 þriggja stiga skotum í leiknum. Skvettubræðurnir voru einu leikmenn Warriors með meira en tíu fráköst, Curry tók 11 fráköst og Klay 10.

Allen Crabbe skoraði 25 stig fyrir Brooklyn Nets og Spencer Dinwiddie var með 21 stig og 8 stoðsendingar.





Nýliðinn Lonzo Ball var með sína aðra þrennu á tímabilinu þegar lið hans Los Angeles Lakers vann 127-109 sigur á Denver Nuggets í Staples Center. Ball endaði leikinn með 11 stig, 16 fráköst og 11 stoðsendingar en enginn nýliði hefur tekið fleiri fráköst í einum leik á leiktíðinni.

Mike Malone þjálfari Denver Nuggets og aðalstjarna liðsins, miðherjinn Nikola Jokic, voru báðir reknir út úr húsi þegar rúmar sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum.



 

DeMar DeRoan skoraði 33 stig þegar Totonto Raptors vann 100-91 sigur á Washington Wizards en næststigahæsti leikmaður liðsins var C.J. Miles með 12 stig. John Wall spilaði ekki með Washington vegna hnémeiðsla. Bradley Beal var stigahæstur með 27 stig.

Andre Drummond var með 20 stig og 16 fráköst þegar Detroit Pistons vann 100-97 sigur á  Minnesota Timberwolves á útivelli. Tobias Harris og Avery Bradley voru báðir með 18 stig. Jimmy Butler skoraði 26 stig og tók 10 fráköst fyrir Minnesota og Andrew Wiggins var með 24 stig.





Öll úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Los Angeles Lakers - Denver Nuggets    127-109    

Phoenix Suns - Chicago Bulls    113-105    

Minnesota Timberwolves - Detroit Pistons    97-100    

Brooklyn Nets - Golden State Warriors    111-118    

Miami Heat - Indiana Pacers    95-120    

Toronto Raptors - Washington Wizards    100-91

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×