Fótbolti

Ætla að ferðast með íslenska landsliðið alla leið til Indónesíu í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson verður fjarri góðu gamni í Indónesíuferðinni.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson verður fjarri góðu gamni í Indónesíuferðinni. Vísir/Ernir
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er nýkomið heim frá Katar og nú er ljóst að næsta ferð landsliðsins verður líka til Asíu. Landliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson mun þá ferðast ennþá lengra með liðið sitt en hann gerði í síðustu ferð sem lauk í síðustu viku.

Fótbolti.net hefur það eftir fréttamiðlum frá Indónesíu að íslenska landsliðið muni spila á móti Indónesíu í vináttuleik í Indónesíu í janúar.

Indónesía er að undirbúa 23 ára lið sitt fyrr Asíuleikana sem verða næsta sumar. Liðið sem mun spila þennan leik gegn Íslandi í fyrsta mánuði næsta árs verður því skipað leikmönnum sem eru 23 ára og yngri.

„Við viljum fá betri vináttuleiki fyrir Asíuleikana. Þessi vináttuleikur (gegn Íslandi) er í forgangi fyrir U23 ára lið okkar," sagði Ratu Tisha Destria framkvæmdastjóri knattspyrnusambands Indónesíu í samtali við CNN þar í landi.

Íslenska landsliðið verður ekki með sitt sterkasta lið í þessari ferð því það eru ekki alþjóðlegir leikdagar í janúar og því geta leikmenn á Englandi og meginlandi Evrópu ekki tekið þátt. Liðið verður væntanlega eingöngu skipað leikmönnum af Norðurlöndunum.

Heimir Hallgrímsson er að undirbúa liðið fyrir heimsmeistarakeppnina í Rússlandi næsta sumar þar sem Ísland mun í fyrsta sinn vera meðal þátttökuliða.

Íslenska landsliðið fór líka til Asíu í byrjun þessa árs en strákarnir spiluðu þá á æfingamóti í Kína.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×