Fótbolti

Hörður Björgvin á eina bestu tilvitnun vikunnar hjá FIFA: Heimurinn hissa en ekki við strákarnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon fagnar sæti á HM 2018.
Hörður Björgvin Magnússon fagnar sæti á HM 2018. Vísir/Ernir
Íslenski landsliðsbakvörðurinn Hörður Björgvin Magnússon ræddi ævintýri íslenska knattspyrnulandsliðsins í síðustu viku og ummæli hans komust á lista hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, yfir bestur tilvitnanir vikunnar.

Hörður Björgvin, sem leikur með Bristol City í ensku b-deildinni, var í viðtali hjá netsíðunni Goal.com og talaði um afrek íslenska fótboltalandsliðsins að komast á HM í fyrsta sinn.



„Það kemur okkur ekki á óvart að hafa komist á HM. Það hefur alltaf verið markmið hjá okkur að komast á stórmót. Við höfum ekki leikmenn eins og Neymar eða Philippe Coutinho í okkar liði en við erum með leikmenn sem vinna vel saman og sem ein liðsheild. Það var sá andi sem hjálpaði okkur að vinna England á Evrópumótinu og getur komið okkur enn lengra,“ sagði Hörður Björgvin í viðtalinu við Goal.com sem kom honum í tilvitnunarhóp vikunnar hjá FIFA.

Hörður Björgvin er þar í hópi með Gianluigi Buffon, fyrirliða ítalska landsliðsins, Janne Andersson, þjálfara sænska landsliðsins, Marcus Rashford, leikmanni enska landsliðsins, Brasilíumanninum Robinho og Sadio Mane, leikmanni Liverpool og landsliðs Senegal. Þar eiga líka Jose Mourinho, Ronaldinho, Age Hareide og  Gus Poyet líka skemmtilegar tilvitnanir.

Það má nálgast alla samantekt FIFA með því að smella hér.

Hörður Björgvin vann sér sæti í byrjunarliði íslenska landsliðsins í miðri undankeppninni og skoraði meðal annars ótrúlega mikilvægt sigurmark á móti Króatíu í Laugardalnum. Án sigurmarksins hans í Króatíuleiknum í júní þá hefði íslenska landsliðið ekki unnið riðilinn og því þurft að fara í umspil um sæti í úrslitakeppni HM í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×