Erlent

Steinmeier segir flokkunum að halda viðræðum áfram

Atli Ísleifsson skrifar
Frank-Walter Steinmeier er forseti Þýskalands.
Frank-Walter Steinmeier er forseti Þýskalands. Vísir/AFP
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, hefur beint þeim orðum til leiðtoga þýsku stjórnmálaflokkanna að halda viðræðum um stjórnarmyndun áfram. Steinmeier greindi frá þessu klukkan 13:30 í dag þegar hann las yfirlýsingu forseta í beinni sjónvarpsútsendingu.

Stjórnarmyndunarviðræðum Kristilegra demókrata (CDU, CSU), Frjálslynda flokksins (FDP) og Græningja var slitið í gærkvöldi, en það voru Frjálslyndir sem slitu viðræðunum og sögðu skorta traust milli flokkanna.

Fyrir ávarp Steinmeier hafði mikið verið fjallað um hver næstu skref yrðu varðandi stjórnarmyndun þar sem þeir möguleikar voru meðal annars nefndir að boðað yrði til nýrra kosninga eða að Merkel yrði falið að mynda minnihlutastjórn.

Steinmeier nefndi að hann myndi á næstu dögum ræða við fulltrúa flokkanna sem hafa átt í viðræðum og sömuleiðis þeirra sem ekki hafa tekið þátt.

Schulz fundar á miðvikudag

Martin Schulz, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, greindi frá því í morgun að hann muni funda með forsetanum á miðvikudag. Schulz sagði eftir kosningar að Jafnaðarmenn myndu verða í stjórnarandstöðu á kjörtímabilinu eftir að hafa beðið mikinn ósigur í kosningunum.

Stjórnarflokkarnir Kristilegir demókratar (CDU og CSU) og Jafnaðarmenn (SPD) misstu mikið fylgi í kosnningunum í september og hægri popúlistaflokkurinn AfD náði í fyrsta sinn mönnum á þýska þingið. Þá náði FDP aftur mönnum á þing eftir að hafa misst þá alla í kosningunum 2013.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×