Innlent

Kveikt í veitingasölu Þróttara við Laugardalsvöll

Kjartan Kjartansson skrifar
Húsið hefur meðal annars verið notað undir veitingasölu á vegum Þróttar.
Húsið hefur meðal annars verið notað undir veitingasölu á vegum Þróttar. Vísir/Eyþór
Slökkviliðsmenn þurftu að rífa hluta af klæðningu timburhúss í Laugardal nú síðdegis eftir að kveikt var í því. Eldur var kominn í klæðningu og þak hússins þegar slökkvilið kom á vettvang. Húsið er þó ekki mikið skemmt, samkvæmt upplýsingum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var um eldinn kl. 17:30 en húsið stendur á milli eystri stúku þjóðarleikvangsins og Valbjarnarvallar. Greiðlega gekk að slökkva hann. Skemmdir eru ekki sagðar miklar en þó einhverjar á klæðningunni og ytra byrði hússins.

Íþróttafélagið Þróttur hefur notað húsið til veitingasölu og sem geymslu.

Uppfært 20:09 Upphaflega stóð i fréttinni að húsið hefði verið notað undir flugeldasölu Þróttar og var það haft eftir upplýsingum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Íþróttafélagið Þróttur segir hins vegar að flugeldasala hafi farið fram í öðru húsnæði á svæðinu. Fréttinni hefur því verið breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×