Handbolti

Átti stórleik og brunaði svo upp á fæðingadeild

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Finnur Ingi Stefánsson, leikmaður Gróttu, í leik í vetur.
Finnur Ingi Stefánsson, leikmaður Gróttu, í leik í vetur. vísir/vilhelm
Finnur Ingi Stefánsson, leikmaður Gróttu, gat ekki fagnað sigrinum með liðsfélögum sínum í kvöld heldur þurfti hann að bruna upp á fæðingadeild þar sem konan hans, handboltakonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, er að eiga barn þeirra.

Grótta vann í kvöld uppgjör botnliðanna í Olís deild karla þegar liðið lagði Víking 30-19.

Finnur Ingi átti stórleik með Gróttu og var markahæstur í liði Seltirninga með 9 mörk.

„Finnur er farinn upp á fæðingardeild. Konan hans er bara kominn af stað. Ég hitti hana á ganginum fyrir leik en hún fór héðan beint á sjúkrahúsið,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, við blaðamann Vísis sem staddur er á Seltjarnarnesi.

„Hann brunaði bara til hennar beint eftir leik. Vonandi nær hann öllum herlegheitunum. Hann vildi bara drífa þetta af og komast til hennar.. Vonandi gengur allt eins og í lygasögu þar.“



Grótta fór með sigrinum upp úr botnsæti deildarinnar, er nú með fjögur stig eftir 10 leiki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×