Innlent

Neita að gefa eftir varnarliðssvæðið til að styrkja Keflavíkursókn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Brottför bandaríska hersins af Miðnesheiði haustið 2006 opnaði nýjar lendur fyrir Íslendinga.
Brottför bandaríska hersins af Miðnesheiði haustið 2006 opnaði nýjar lendur fyrir Íslendinga. vísir/vilhelm
„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Keflavíkursókn reynir að ná undir sig hluta af Ytri-Njarðvíkursókn,“ segir sóknarnefnd Ytri-Njarðvíkursóknar í bréfi til Fréttablaðsins vegna fréttar í blaðinu fyrir sex dögum um tillögu biskups á kirkjuþingi um að Hlíðahverfi á gamla varnarsvæðinu heyri undir Keflavíkursókn.

Sóknarnefndin segir að tillaga Agnesar M. Sigurðardóttur biskups hafi verið dregin til baka vegna bréfs sem samið hafi verið af lögfræðingi Ytri-Njarðvíkursóknar og sent fulltrúum á kirkjuþinginu. Þar segir að sóknin hafi aldrei fengið að koma að málsmeðferðinni þrátt fyrir að því væri haldið fram í tillögunni, meðal annars vegna þess að bréf hafi verið send á ranga staði.

Séra Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.vísir/anton brink
Lögmaðurinn segir málið ekki vera fullrannsakað. „Ekki hefur farið fram athugun á sögulegri þróun sóknarmarka en Keflavíkursókn hefur áður reynt að ná hluta Ytri-Njarðvíkursóknar. Sögulega tilheyrir landið Njarðvíkurprestakalli,“ segir í bréfi lögmannsins.

Sem fyrr segir á málið sér forsögu. Um miðjan desember 2009 sendi þáverandi biskup, Karl Sigurbjörnsson, sóknarnefnd Ytri-Njarðvíkursóknar bréf vegna þess. Sóknarnefndin svaraði bréfinu 1. febrúar 2010 og mótmælti þar rökum biskups lið fyrir lið.

„Í lokaorðum margnefnds bréfs þar sem meðal annars segir: „skal fúslega játað að fjárhagsstaða Keflavíkurkirkju er afar þung,“ má ef til vill helst finna aðalhvötina fyrir smíði bréfsins. Það vantar frekari fjármuni og þá er heilladrýgst að fara í markaðsátak og ráðast á aðrar sóknir,“ skrifaði sóknarnefndin biskupi á þeim tíma.

Áfram segir í bréfinu að Keflavíkursókn segi forsendu fyrir breytingu á sóknarskipaninni vera bága fjárhagsstöðu sóknarinnar.

„Rök þessi eru nánasta móðgandi gagnvart Ytri-Njarðvíkursókn sem og þeim íbúum sem búa að Ásbrú. Það að ætla þeim að greiða gamlar skuldir Keflavíkursóknar er algjörlega óásættanlegt. Vissulega er vandi Keflavíkursóknar mikill en það á ekki að leysa hann með því að ráðast á aðrar sóknir og breyta sóknarskipan. Sjóðir kirkjunnar verða að leysa vandamál Keflavíkursóknar,“ sagði í bréfi sóknarnefndar Ytri-Njarðvíkurkirkju til biskups í febrúar 2010. 


Tengdar fréttir

Séra Geir spáir fleiri kærum með nýjum reglum um prestskosningar

Hart var deilt á kirkjuþingi um breytingar á reglum um kjör presta. Tillaga var um að ekki mætti kjósa presta nema allir kjörnefndarmenn væru mættir á fund. Biskup og fleiri sögðu það algerlega óraunhæft og tillagan var samþykkt breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×