Sport

Sara: Enginn sem þekkti mig þegar ég var sextán ára hefði getað séð þetta fyrir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir. Mynd/Instagram/sarasigmunds
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er ein besta crossfit konan heimsins í dag og hefur náð frábærum árangri á síðustu þremur heimsleikum.

Ef marka má hennar sögu þá er aldrei of seint að byrja í íþróttum. Ragnheiður Sara er 25 ára gömul í dag en mikið hefur breyst á síðustu níu árum í hennar lífi.

Sara segir frá því hvernig hún breytti sínum lífsstíl í stuttu viðtali sem The CrossFit Games birtu á samfélagsmiðlum sínum.

„Ef þig langar í eitthvað þá getur þú náð því ef þú leggur nógu mikið á þig. Þegar ég var sextán ára þá hafði ég engin markmið. Ég var vön því að skrópa í tíma í skólanum og leggja mig á klósettinu af því að ég var svo þreytt. Nú vakna ég eldsnemma til að fara á æfingu,“ segir Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir brosandi í viðtalinu við hana á Twittersíðu heimsleikana í crossfit.

„Enginn sem þekkti mig þegar ég var sextán ára gömul hefði getað séð mig fyrir sér sem íþróttakonu. Núna er ég crossfit íþróttakona sem er skemmtilegt,“ segir Sara.



Sara var sextán ára gömul árið 2008 eða á sama tíma og Ísland var að ganga í gegnum efnahagshrunið. Eins og íslenska þjóðin hefur unnið sig upp úr því þá hefur Sara unnið sig frá því að sofna á klósettinu í skólanum í að vera ein hraustasta kona heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×