Innlent

„Þegar á reynir er til fullt af góðu fólki”

Aron Ingi Guðmundsson skrifar
Helgi Guðsteinn Reynisson greindist með hvítblæði ALL (Acute Lymphocytic Leukemia) í apríl síðastliðnum.
Helgi Guðsteinn Reynisson greindist með hvítblæði ALL (Acute Lymphocytic Leukemia) í apríl síðastliðnum. stöð 2
„Ég var að hlusta á fréttirnar í vor og það var verið að fjalla um veikindi þegar fólk þarf að taka sig upp og flytja af heimili sínu. Á sama tíma frétti ég af þessum dreng og þetta stakk mig, að í öllu þessu rosalega velferðarríki okkar, sem ráðherrar og þingmenn keppast við að lofa hægri-vinstri og svo þegar á reynir þá er allt uppi á rönd. Það er nánast enginn stuðningur frá ríkinu, ansi ræfilslegur allavega.”

Þetta segir Halldór Holt, Patreksfirðingur og fjölskylduvinur Helga Guðsteins Reynissonar, sjö ára drengs sem greindist með hvítblæði í apríl síðastliðnum. Þegar fyrstu einkenni gerðu vart við sig var Helgi Guðsteinn ítrekað sendur heim af heilsugæslunni á Akureyri, ranglega greindur með flensueinkenni, líkt og greint var frá í júní síðastliðnum.

Helgi Guðsteinn var ranglega greindur með flensu, og ítrekað sendur heim af heilsugæslunni.vísir
Halldór ætlar að halda styrktartónleika fyrir Helga Guðstein þann 6. desember næstkomandi í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði.

Ræfilslegur stuðningur frá ríkinu

Halldór segir að þó það verði ekki hundruð þúsunda eða milljónir sem safnast á tónleikunum, þá muni um hverja krónu. Þá sé það ekki síður samhugurinn sem gildi.

„Það tóku allir rosalega vel í þetta verkefni, það er her manna sem ætlar að spila og syngja. Ég heyrði í fólki frá Ísafirði sem bað sérstaklega um að fá að koma og vera með. Ég hugsaði bara með mér að við hljótum að geta gert eitthvað,“ segir Halldór.

„Og það hefur komið á daginn, eins og þegar ég hafði samband við fyrirtæki hér á svæðinu þá lá ekki á svörum frá þeim, peningaskúffur opnuðust og allir voru tilbúnir að leggja eitthvað af hendi. Það var til dæmis ekkert mál að fá Skjaldborgarbíó lánað undir viðburðinn og bæjarstjóri Vesturbyggðar var boðinn og búinn að vera kynnir þetta kvöld.

Þegar á reynir þá er til fullt af góðu fólki,“ bætir hann við, en aðgangseyrir er 2000 krónur.

Halldór Holt, er fjölskylduvinur Helga Guðsteins.


Foreldragreiðslur hætta í desember

Móðir Helga Guðsteins, Margrét Fanney Sigurðardóttir, segir ekki mikinn stuðning að fá frá ríkinu. Þau fái greiddar foreldragreiðslur og ferðakostnað, en foreldragreiðslurnar muni hætta næstkomandi desember. Þá fari eiginmaðurinn hennar aftur að vinna, en þau þurftu bæði að hætta að vinna eftir að Helgi Guðsteinn greindist með krabbamein.

Auk þess þurftu þau að flytja frá Akureyri þar sem þeim var gert að búa ekki lengra en í 45 mínútna akstursfjarlægð frá Barnaspítala Hringsins í Reykjavík. Akranes hafi orðið fyrir valinu þar sem ekki sé möguleiki að finna íbúð til leigu á viðráðanlegu verði í Reykjavík. Aðspurð segir Margrét að aðlögunin á Akranesi hafi gengið ljómandi vel, það hafi þó ekki reynt mikið á það, þar sem þau fari ekki mikið úr húsi. Þau fari einungis út í búð og að sækja eldri drenginn í skóla, en þau eiga tvö eldri börn.

Margrét Fanney og Helgi.
„Við stefnum á að flytja aftur norður eftir þessa meðferð ef það er mögulegt. Þar leið okkur öllum vel. Stelpan okkar er í skóla á Laugum í Þingeyjarsýslu, við reynum að halda henni þar, þar líður henni vel og það er styttra frá Akureyri þangað heldur en héðan eins og gefur að skilja. Miðjubarnið okkar tekur þessu eins og við hin, en það var erfitt að byrja í 10. bekk í nýjum skóla. Það var ekki valkostur að vera áfram fyrir norðan, þetta risasjúkrahús þar er því miður ekki neitt, þar er ekki til staðar sú þjónusta sem við þurfum.“

Margrét segir að fjölskyldan sé óendanlega þakklát Halldóri fyrir að skipuleggja styrktartónleikana og fyrir alla þá hjálp sem Halldór hefur fengið er varðar tónleikana. Verst þyki henni að geta ekki verið viðstödd þá, en vill koma því til skila að þeir sem leggi hönd á plóg eigi allan heiður skilinn.

Fjallað var um mál Helga Guðsteins á Stöð 2 á dögunum, en fréttina má sjá hér fyrir neðan.

Þeim sem vilja styrkja Helga Guðstein og fjölskyldu hans, er bent á eftirfarandi reikningsupplýsingar:

Rn: 0153-05-060278

Kt: 111154-6199


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×