Innlent

Mjög slæmt ferðaveður eftir hádegi

Birgir Olgeirsson skrifar
Veðurstofan segir um að ræða vetrarskot sem mun klárast á laugardaginn ef spárnar ganga eftir.
Veðurstofan segir um að ræða vetrarskot sem mun klárast á laugardaginn ef spárnar ganga eftir. vedur.is
Spáð er hríðarveðri á Norður- og Austurlandi eftir hádegi í dag. Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir mjög hvössum vindi, einkum á Suðausturlandi síðdegis, og verður því mjög slæmt ferðaveður á þessum slóðum.

Gert er ráð fyrir nokkuð mikilli snjókomu með hvössum vindi á Norður- og Austurlandi fram að helgi. Veðurstofan segir um að ræða vetrarskot sem mun klárast á laugardaginn ef spárnar ganga eftir.

Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám og kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað.

Búið er að loka vegunum um Víkurskarð og á Mývatns- og Möðrudalsöræfum vegna stórhríðar. Hálka er á Hellisheiði, Þrengslum og hálka, hálkublettir eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum og ófært á Bröttubrekku og Fróðárheiði. Mjög hvasst er á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Snjóþekja eða hálka er á sunnanverðum Vestfjörðum og skafrenningur á fjallvegum. Flughálka er á milli Kleifarheiðar og Brjánslækjar og ófært á Klettshálsi.  Einnig er ófært á Steingrímsfjarðarheiði og þungfært á Þröskuldum og slæmt veður. Þungfært er einnig í Ísafjarðardjúpi og á Drangsnesvegi.

Á Norðurlandi vestra er snjóþekja eða hálka á vegum. Verið er að kanna ástand á Siglufjarðarvegi m.t.t. snjóflóðahættu. Norðaustanlands er nú lokað á Víkurskarði, Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði en annars hálka eða snjóþekja á vegum og töluverð snjókoma eða éljagangur.

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Austurlandi en þungfært og skafrenningur á Fjarðarheiði. Ófært er á Vatnsskarði eystra.  Hálka eða hálkublettir eru með Suðausturströndinni frá Höfn og áfram suður.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun:

Norðan 13 til 18 metrar á sekúndu, en 18-23 á Suðausturlandi síðdegis og einnig á stöku stað við fjöll suðvestanlands. Snjókoma eða él fyrir norðan og austan, en yfirleitt þurrt sunnan heiða. Frost víða 0 til 5 stig.

Á fimmtudag og föstudag:

Norðan hvassviðri eða stormur. Snjókoma eða él, en úrkomulaust um sunnanvert landið. Frost 0 til 8 stig.

Á laugardag:

Allhvöss eða hvöss norðanátt í fyrstu með éljum á Norður- og Austurlandi, en bjartviðri sunnan heiða. Fer að lægja eftir hádegi, fyrst vestantil á landinu. Áfram kalt í veðri.

Á sunnudag:

Austlæg átt og bjart veður, en skýjað og dálítil snjókoma á SV- og V-landi. Hiti um frostmark við SV-ströndina, en talsvert frost í innsveitum N- og A-lands.

Á mánudag:

Hægur vindur og þurrt. Frost um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×