Innlent

Kattavinafélagið fordæmir dráp á heimilisketti: „Dýraeftirlitsmaðurinn braut reglugerð og samþykktir“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Kattavinafélagið hvetur sveitastjórn Fljótsdalshéraðs til að bregðast við af fullri ábyrgð vegna kattadrápsins.
Kattavinafélagið hvetur sveitastjórn Fljótsdalshéraðs til að bregðast við af fullri ábyrgð vegna kattadrápsins. Vísir/Vilhelm
Stjórn Kattavinafélags Íslands hefur sent frá sér tilkynningu varðandi kattardráp á Egilsstöðum. Í tilkynningu segist stjórnin harma fréttir af drápi dýraeftirlitsmanns Fljótsdalshérað á kettlingi í eigu fjölskyldu á Egilsstöðum.

„Ljóst er að dýraeftirlitsmaðurinn braut reglugerð og samþykktir sveitarfélagsins um kattahald, auk þess að brjóta reglugerð um lög við dýravelferð.“

Kattavinafélagið átelur harðlega vinnubrögð dýraeftirlitsmannsins og hvetur sveitastjórn Fljótsdalshéraðs til að bregðast við af fullri ábyrgð vegna þessa verknaðar og öðrum sambærilegum, sem átt hafa sér stað í sveitarfélaginu.

DV fjallaði fyrst um málið en dýraeftirlitsmaður Fljótsdalshéraðs drap Úlf, sex mánaða heimiliskött fjölskyldu á Egilsstöðum. Kötturinn Úlfur hafði verið tíður gestur hjá nágranna þeirra, án vitneskju eigenda hans. Nágranni Sonju hringdi á dýraeftirlitið sem sótti köttinn og drap hann innan sólarhrings. Fjölskyldan segir að það hafi verið augljóst að Úlfur væri ekki villiköttur, hann var þó hvorki örmerktur, né með ól.

Dýraeftirlitsmaðurinn fangaði köttinn klukkan 01:00 aðfaranótt mánudags en hafði drepið hann þegar fjölskyldan hafði samband um hálf tíu á mánudagskvöldið. 

Kattavinafélagið vísar í sinni tilkynningu til 15. greinar reglugerðar um velferð gæludýra:

„Dýralæknum er einum heimilt að aflífa gæludýr, nema í neyðartilfellum þegar fullreynt er að ekki næst í dýralækni og ætla má að sjúkdómur dýrs eða meiðsl valdi dýrinu óbærilegum kvölum eða séu banvæn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×