Innlent

Laugarnesskóli og Laugasel hljóta viðurkenningu UNICEF

Atli Ísleifsson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og skólakórinn Laugarnesskóla í morgun.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og skólakórinn Laugarnesskóla í morgun. Reykjavíkurborg
Nemendur, foreldrar og starfsfólk Laugarnesskóla fögnuðu því í morgun að skólinn og frístundaheimilið Laugasel hafi fengið viðurkenningu UNICEF sem Réttindaskóli.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að viðurkenningin þýði að ákvæði Barnasáttmálans séu grundvöllur alls skóla- og frístundastarfs og að börnin séu meðvituð um réttindi sín alla daga.

„Réttindaskólar UNICEF byggja á hugmyndafræði sem hefur verið innleidd í þúsundum skóla um allan heim og byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Réttindaskólar vinna markvisst að því að börn, kennarar, foreldrar og aðrir sem tengjast skólunum þekki réttindi barna og beri virðingu fyrir þeim. Þeir leggja Barnasáttmálann til grundvallar í öllu sínu starfi og skapa vinnuumhverfi fyrir börnin sem byggja á þátttöku þeirra, jafnrétti, lýðræði og viðurkenningu.

Nemendur Laugarnesskóla í morgunsöng.Reykjavíkurborg
Laugarnesskóli og Laugasel eru fyrst til að hljóta viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF hér á landi en aðdragandinn að þessari viðurkenningu tveggja ára undirbúningsstarf með nemendum og starfsfólki,“ segir í fréttinni.

Nánar má lesa um málið á vef borgarinnar, Að neðan má sjá upptöku Dags B. Eggertssonar borgarstjóra frá Laugarnesskóla í morgun þar sem skólakór Laugarnesskóla söng lagið Sautján þúsund sólargeisla eftir Kristjönu Stefánsdóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×