Viðskipti innlent

Íslenska fyrirtækið Endor verðlaunað af Hewlett Packard

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Guðbrandur R. Sigurðsson, Arnar Kjærnested og Davíð Þ. Kristjánsson frá Endor.
Guðbrandur R. Sigurðsson, Arnar Kjærnested og Davíð Þ. Kristjánsson frá Endor. mynd/aðsend
Uppýsingafyrirtækið Endor hlaut nú á dögunum Hector verðlaunin frá Hewlett Packard Enterprise (HPE) sem hástökkvari ársins 2017. Eru verðlaunin veitt fyrir mestan vöxt samstarfsaðila HPE í Danmörku og Íslandi á árinu 2017 samanborið við árið á undan.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að Endor hljóti verðlaunin fyrir mikinn vöxt á árinu 2017 og þá einkum í tengslum við gagnageymslulausnir, en Endor var einn söluhæsti samstarfsaðilinn í Evrópu á sölu lausna frá birgjanum Nimble Storage sem HPE keypti nýlega. Þar kemur einnig fram að Endor sé með mikla þekkingu á miðlægum búnaði og gagnaverstengdum lausnum, skilji þarfir viðskiptavina og þær umbreytingar sem eru að eiga sér stað og veiti viðskiptavinum gæðaráðgjöf varðandi val á viðeigandi lausnum. 

Þrír af stofnendum Endor, Guðbrandur R. Sigurðsson, Arnar Kjærnested og Davíð Þ. Kristjánsson, veittu verðlaununum viðtöku í árlegum viðhafnarkvöldverði til heiðurs samstarfsaðilum HPE í Kaupmannahöfn.

Endor er ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í að hámarka rekstrarhagkvæmni fjárfestinga í upplýsingatækni og nýtir til þess nýjustu tækni í sjálfvirknivæðingu.

Meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru Íslandsbanki, RÚV, Ölgerðin og Íslandshótel. Auk þess sinnir Endor franska upplýsingatæknifyrirtækinu ATOS, sem sinnir til að mynda lykilhlutverki varðandi upplýsingatæknimál Ólympíuleikanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×