Skoðun

Aldamótakynslóðin vill fá tækifærin í hendurnar

Kristján Freyr Kristjánsson skrifar

Aldamótakynslóðin er heiti yfir þann hóp af fólki sem er fætt á árunum 1981-1999. Hópurinn er að mörgu leyti ólíkur fyrirrennurum sínum. Hann er talinn hafa mikla þörf fyrir tilgang í starfi, hefur yfirburði í tæknikunnáttu og á í erfiðleikum með að skuldbinda sig til langs tíma á hverjum vinnustað.



Hópurinn tengir ekki alltaf við eldri samborgara sína. Á kaffistofum þar sem umræður snúast um innlendar fréttir gærdagsins eða sjónvarpsþætti vikunnar tengir aldamótakynslóðin ekki við - enda fylgist stór hópur hennar með hvorugu. Í stað þess að lesa dagblöð fylgist hann með fréttum sem einsleitur hópur vina deilir á samfélagsmiðlum. Þá hafa streymisþjónustur á borð við Netflix, gert hópnum kleift að fylgjast með því efni sem hann langar að fylgjast með á hverjum tíma, í stað þess að fylgja auglýstri sjónvarpsdagskrá.



Það eru einkum tvær skilvirkar leiðir sem duga til að ná til hinnar nýju kynslóðar. Í fyrsta lagi með því að útbúa og greiða fyrir sérsniðnar auglýsingar, sem settar eru í rétt form, fyrir rétt snjalltæki og birtast á réttum tíma. Í annan stað með því að fá vini, kunningja og fyrirmyndir, sem viðkomandi treystir, til að deila áhugaverðu efni á þeim samfélagsmiðlum sem viðkomandi notar.



Í því tækniumhverfi sem aldamótakynslóðin hefur alist upp við er hægt að fá stöðugt mat á frammistöðu og hugmyndum í rauntíma frá vinum og kunningjum. Ef skilaboðin eru nægilega áhugaverð, getur hver sem er tekið þátt í umræðunni, einungis mínútum eftir að hún hófst.



Aldamótakynslóðin vill ekki sækja um störf og eiga í hættu á að vera hafnað. Hún vill heyra af tækifærum. Hún vill að vinir og kunningjar láti sig vita þegar störf losna. Hún vill eiga umræður um tækifærin og fá endurgjöf frá fólki sem hún treystir og vill vita hvort tækifærið sé þess virði að sækjast eftir því. Hún vill vita hvort framtíðarvinnustaðurinn standi ekki örugglega fyrir rétt gildi - sem viðkomandi samsvarar sig við - og að þar ríki sterk vinnustaðarmenning þar sem starfsfólk er ánægt og geti vaxið í starfi.



Fyrirtæki víða um heim eru farin að bregðast við þessum nýja veruleika. Framtíðin er þeirra.



Höfundur er framkvæmdastjóri hjá 50skills sem sérhæfir sig í nýrri nálgun við ráðningar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×