Erlent

Trump ver frambjóðanda sem er sakaður um að eltast við unglingsstúlkur

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hefur sjálfur verið sakaður um kynferðislega áreitni og árásir á konur.
Trump hefur sjálfur verið sakaður um kynferðislega áreitni og árásir á konur. Vísir/AFP

Eftir að hafa þagað þunnu hljóði um ásakanir á hendur Roy Moore, frambjóðanda repúblikana til öldungadeildar Bandaríkjaþings í Alabama, um áreitni gegn unglingsstúlkum tók Donald Trump forseti af skarið og varði Moore í dag. Fann hann frambjóðanda demókrata allt til foráttu og sagði að hlusta yrði á neitanir Moore.

Washington Post sagði fyrst frá ásökununum fyrir að verða tveimur vikum. Nokkrar konur hafa stigið fram og fullyrt að Moore hafi elst við þær, áreitt og brotið gegn kynferðislega þegar þær voru unglingar eða ungar konur en hann saksóknari á fertugsaldri. Ein kvennanna var fjórtán ára þegar Moore hafði uppi kynferðislega tilburði við hana.

Fréttamenn spurðu Trump út í mál Moore við Hvíta húsið í dag og benti forsetinn þá á að Moore hafnaði ásökununum algerlega, að því er New York Times greinir frá.

„Ef þið lítið á það sem er í gangi í raun og veru og þið horfið á alla hlutina sem hafa gerst síðustu 48 klukkustundirnar þá neitar hann því alfarið. Hann segir að þetta hafi ekki gerst. Þið verðið líka að hlusta á hann,“ sagði Trump.

Nokkrir leiðtoga repúblikana á landsvísu hafa hvatt Moore til að stíga til hliðar en kosið verður um þingsætið 12. desember. Því hefur Moore hafnað. Landsnefnd repúblikanaflokksins hefur dregið til baka fjárstuðning sinn við framboð Moore vegna ásakananna.

Ákærði Kú Klúx Klan-liða en Trump segir hann „hræðilegan“ með glæpi

Þá gagrýndi hann Doug Jones, frambjóðanda demókrata til öldungadeildarþingsætisins í Alabama, sem mælist skyndilega með svipað fylgi og Moore eftir að hafa átt verulega á brattann að sækja í kosningabaráttunni áður en ásakanir kvennanna komu fram.

„Við þurfum ekki frjálslynda manneskju þarna inn, demókrata, Jones,“ sagði Trump og sakaði Jones um að vera „hræðilegan“ í málefnum glæpa, landamæra og hersins.

Jones er fyrrverandi héraðssaksóknari sem ákærði meðal annars félaga í Kú Klúx Klan sem stóðu að sprengjuárás í kirkju í Alabama á 7. áratugnum.

Trump hefur sjálfur verið sakaður um kynferðislega áreitni og ofbeldi gegn konum. Þannig hefur hann meðal annars stært sig af því að hafa gengið inn á þátttakendur í fegurðarsamkeppni sem hann átti á meðan stúlkurnar voru fáklæddar. Í kosningabaráttunni í fyrra kom fram gömul upptaka þar sem Trump gortaði sig af því að geta þuklað á konum og kysst þær í krafti frægðar sinnar.

„Maður getur gert hvað sem er, gripið þær í píkuna. Maður getur gert hvað sem er,“ sagði Trump á upptökunni.


Tengdar fréttir

Eiginkonan náði fyrst auga Moore þegar hún var táningur

Frambjóðandi repúblikana í Alabama sem sakaður er um að áreita unglingsstúlkur hefur sjálfur lýst því þannig að hann hafi fyrst tekið eftir eiginkonu sinni þegar hún var fimmtán eða sextán ára gömul.

Slíta tengsl sín við Moore

Landsnefnd Repúblikanaflokksins ætlar að tengsl sín við Roy Moore, frambjóðenda flokksins til öldungadeildasætis Alabama. Moore hefur verið sakaður um að hafa brotið kynferðislega á táningsstúlkum á árum áður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×