Erlent

Listrænn stjórnandi Pixar fer í leyfi vegna ásakana um kynferðislega áreitni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
John Lasseter.
John Lasseter. vísir/getty

John Lasseter, listrænn stjórnandi teiknimyndafyrirtækisins Pixar and Walt Disney Animation, er farinn í sex mánaða leyfi vegna ásakana um að hann hafi kynferðislega áreitt starfsmenn fyrirtækisins.



Lasseter baðst í dag afsökunar á því sem hann kallar mistök sín en Hollywood Reporter var með frétt í smíðum um ásakanirnar á hendur Lasseter þegar hann tilkynnti starfsmönnum Pixar að hann væri á leið í leyfi.



Á meðal þess sem Lasseter er sakaður um er að hafa klipið og kysst konur sem störfuðu hjá fyrirtækinu án þess að þær vildu það og komið með athugasemdir um útlit þeirra.



Lasseter er þekktastur fyrir að vera einn af stofnendum Pixar en árið 2006 keypti Disney fyrirtækið og Lasseter varð þá listrænn stjórnandi. Lasseter leikstýrði meðal annars Toy Story og Toy Story 2 og þá er hann aðalframleiðandi eða framleiðandi nánast allra mynda sem Pixar and Walt Disney Animation gera. Það þarf því engum að dyljast hversu valdamikill hann var innan fyrirtækisins.



Í bréfi sem Lasseter sendi starfsmönnum Pixar í dag segir hann að honum hafi verið bent á að hann hafi látið sumum starfsmönnunum líða óþægilega. Þá hafi sumum ekki fundist sem hann sýndi þeim virðingu. Lasseter segir að slík hegðun hafi aldrei verið ætlun hans.



„Þið skiptið mig öllu máli og mig langar að biðja ykkur öll afsökunar ef ég hef brugðist ykkur. Mig langar sérstaklega að biðja þau ykkar afsökunar sem hafa fengið frá mér faðmlag sem þið vilduð ekki eða einhvers konar aðra snertingu sem fór yfir ykkar mörk. Það er alveg sama þó að ég hafi meint vel, allir eiga rétt á að setja sín mörk og að þau séu virt,“ segir Lasseter meðal annars í bréfinu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×