Lífið

Helgi í Góu beinir herferð að lífeyrissjóðunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Myndbandið er hádramatískt.
Myndbandið er hádramatískt. Skjáskotið
Helgi Vilhjálmsson, jafnan kenndur við Góu, hóf í gær auglýsingaherferð og undirskriftasöfnun þar sem hann skorar á lífeyrissjóðina að hugsa orðið „arðsemi“ upp á nýtt.

Herferðin ber nafnið Okkar sjóðir og leit fyrsta auglýsingin, sem sjá má hér að neðan, dagsins ljós í gær. Þar er fylgst með lífshlaupi pars sem fær svo ekki að búa saman í ellinni vegna veikinda konunnar. 

„Í þetta skiptið beinum við kastljósinu að loforðinu sem við gefum við altarið: „Í blíðu og stríðu þar til dauðinn skilur okkur að,“ sem er í raun og veru „Í blíðu og stríðu þar til heilsan skilur okkur að“, þar sem fólk fær ekki að búa með maka sínum ef makinn þarf umönnun á yfirfullu hjúkrunarheimili,“ er haft eftir Helga í tilkynningu.  

Fasteignir góð fjárfesting

„Fjöldi eldra fólks er því á stöðugu ferðalagi á milli hjúkrunarheimilisins og eigin heimilis með tilheyrandi kostnaði og vanlíðan. Lífeyrissjóðirnir geta komið í veg fyrir þann skilnað. Hvað er arðsemi í raun og veru og til hvers borgum við í lífeyrissjóð? Gott ævikvöld er það sem við vonumst eftir, eða eins gott og kostur er og heilsan leyfir, en að vera aðskilin er ekki það sem eldra fólk óskar sér. Í það ættu fjármunirnir að fara. Fasteignir eru góð fjárfesting. Fasteign sem þjónar öldruðu fólki betur en hægt er að gera núna er besta fjárfestingin,“ segir Helgi ennfremur um nýju herferðina.  

Hægt er að skora á lífeyrissjóðina um breytta fjárfestingastefnu á síðunni Okkarsjodir.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×