Enski boltinn

Fagnaði tvisvar á vellinum og einu sinni upp á spítala

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Colclough varð þarna faðir í annað skiptið.
Ryan Colclough varð þarna faðir í annað skiptið. Mynd/Twitter/@DavidSharpe91
Ryan Colclough mun örugglega ekki gleyma þriðjudagskvöldinu 21. nóvember 2017 í bráð enda hafa ekki margir knattspyrnumenn átt eftirminnilegra kvöld en þessi 22 ára vængmaður Wigan.

Ryan Colclough skoraði tvö mörk fyrir Wigan í 3-0 sigri á Doncaster Rovers. Seinna markið hans kom á 58. mínútu og því var nægur tími til að ná þrennunni.

Colclough var hinsvegar skipt af velli þremur mínútum síðar en það var ekki fótboltinn sem réði því.

Konan hans var nefnilega komin af stað í því að fæða annað barnið þeirra. Ryan Colclough frétti það í hálfleik að konan hefði misst vatnið og væri á leiðinni upp á spítala. Það var því ekkert annað í stöðunni en að gera út um leikinn og drífa sig upp á spítala.

Ryan Colclough gerði það líka, leikurinn var í raun búinn þegar hann kom Wigan í 3-0, og hann kláraði sína þrennu kvöldsins með því að fá barnið sitt í fangið að lokinn fæðingu.

Eins og sést hér fyrir neðan þá hafði Ryan Colclough engan tíma til að klæða sig úr keppnisbúningnum.



„Hann frétti það í hálfleik að konan væri komin af stað. Um leið og hann skoraði annað markið sitt þá tókum við hann útaf því hausinn hans var allt annar staðar. Við erum allir ólíkir. Sumir leikmenn hefðu ekki farið og væru enn í búningsklefanum núna,“ sagði Leam Richardson aðstoðarknattspyrnustjóri Wigan við BBC.

Ryan Colclough var aðeins búinn að skora eitt mark í deildinni á tímabilinu og þrefaldaði því markaskorið sitt í gærkvöldi. Hitt markið hans kom á móti Peterborough í september. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×