Innlent

Ráðherra segir umgengni um fiskveiðiauðlindina ólíðandi en framkvæmdastjóri SFS segir áhyggjur óþarfar

Birgir Olgeirsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra og Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra og Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS Vísir
Sjávarútvegsráðherra lítur brottkast útgerða alvarlegum augum á meðan framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja sjávarútvegs segir áhyggjurnar að mestu óþarfar.

Fjallað var um brottkast í íslenskum sjávarútvegi í fréttaskýringaþættinum Kveik í Sjónvarpinu í gærkvöldi. Þar var vísað í rannsókn Hafrannsóknastofnunar frá árinu 2015 þar sem brottkast þorsks og ýsu var sagt hafa numið 3.200 tonnum árið 2015 og ekki mælst meira í nærri áratug.

Birt var myndefni úr frystitogaranum Kleifarbergi sem sýndi áhöfnina henda fisk fyrir borð og því haldið fram að brottkast eigi sér stað með einhverju móti í hverjum túr.

Frá Reykjavíkurhöfn.vísir/vilhelm
Sagði stofnunina vanmáttuga

Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu, sagði við Kveik að stofnunin gæti ekki staðið undir nægjanlegu eftirliti á brottkasti, framhjálöndun og öðrum undanskotum.

Fjallað var um endurvigtun á afla í Kveik og því haldið fram að mikill misbrestur sé þar á. Allur afli skal vigtaður á löggiltri hafnarvog af starfsmanni sem hefur hlotið til þess löggildingu. Þannig sé hægt að vita hversu mikið hefur verið veitt af þeim afla sem Hafrannsóknastofnun kveður á um að megi veiða á hverju ári.

Aflanum sé síðan keyrt inn í fiskvinnslur sem hafi margar hverjar leyfi til endurvigtunar. Í þættinum kom fram að 120 slík leyfi séu fyrir hendi hér á landi og að sú vigtun sé lokatalan sem sé miðað við. Þegar aflinn er vigtaður á hafnarvog er ísinn sem er notaður til að kæla hann vigtaður með. Endurvigtunin er gerð til að vigta aflann án íssins. Þannig sé hægt að halda því fram að hlutfall íss af lönduðum afla hafi verið allt að tuttugu prósent og fisknum þannig landað fram hjá vigt með því að skrá hann sem ís.

Í Kveik kom fram að þegar Fiskistofa hefur eftirlit með endurvigtun sé hlutfall íss jafnan lægra en þegar endurvigtun fer fram án eftirlits.

Fréttamenn Kveiks ræddu við Þórhall Ottesen, sem starfaði sem eftirlitsmaður og síðar deildarstjóri landeftirlits Fiskistofu í ríflega 20 ár, sem sagði að þegar eftirlitsmenn fylgjast með endurvigtun hafi ísprósentan verið um fimm prósent á meðan tölur yfir eftirlitslausa endurvigtun bentu til þess að íshlutfallið væri frá 12 og upp í 17 prósent.

Endurvigtun fiskvinnsla var gagnrýnd í þættinum í gær.Vísir
Breyta þurfi lögum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði þessa umgengni um auðlinda ólíðandi í viðtali við fréttastofu RÚV í gærkvöldi. Hún sagði Fiskistofu gera sitt besta og að aðallega væri við útgerðirnar að sakast. Breyta þurfi lögum til að herða eftirlit og auka heimildir Fiskistofu.

Hún boðaði jafnframt til fundar í ráðuneytinu þar sem rætt verður hvernig og hvort bregðast eigi við þessu.

Áhyggjur að mestu óþarfar

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagði í yfirlýsingu á vef samtakanna í gærkvöldi að áhyggjur einstakra aðila sem settar voru fram í þættinum séu að mestu óþarfar.

Sagði hún miður að í þættinum hafi ekki verið leitað viðbragða þeirra sem nýta auðlindina. Hún sagði brottkast hafa tíðkast fyrir þrjátíu árum og þótt þá ekkert tiltökumál. Sagði hún jákvæða þróun hafa orðið á frá þeim tíma og að upptaka kvótakerfis hafi verið mikið gæfuspor í því tilliti.

Hún sagði skýrslu Hafrannsóknastofnunar sýna að árlegt brottkast á þorski sé um eitt prósent og tvö til þrjú prósent á ýsu og að fullur vilji standi til að útrýma algjörlega brottkasti. 

Tekist hafi vel til við að viðhalda þorskstofninum þar sem viðmiðun Hafrannsóknastofnunar hafi aukist úr 688 þúsund tonnum árið 2007 í 1.241 þúsund tonn árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×