Umfjöllun og viðtöl: FH - Stjarnan 30-27 | FH-ingar aftur á toppinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson var góður í seinni hálfleik.
Ásbjörn Friðriksson var góður í seinni hálfleik. vísir/eyþór
FH komst aftur á topp Olís-deildar karla með 30-27 sigri á Stjörnunni í Kaplakrika í kvöld. Þetta var fyrsti sigur FH í síðustu þremur leikjum.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn betur en fljótlega náðu FH-ingar undirtökunum.

Vörn heimamanna var sterk og Ágúst Elí Björgvinsson góður í markinu. Það skilaði FH-ingum fjölmörgum hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik.

FH var fimm mörkum yfir í hálfleik, 15-10, og með góða stjórn á leiknum framan af seinni hálfleik.

Stjarnan kom með ágætis áhlaup undir lokin en það dugði ekki til. Lokatölur 30-27, FH í vil.

Stjörnumenn eru áfram í 6. sæti deildarinnar.

Af hverju vann FH?

Sterka leikmenn vantaði í lið Stjörnunnar í kvöld. Egill Magnússon, Stefán Darri Þórsson og Ari Magnús Þorgeirsson voru allir fjarri góðu gamni vegna meiðsla og sóknarleikur gestanna var fyrir vikið veikburða, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Það tók FH-inga smá tíma að komast í gang en eftir sex mörk í röð í fyrri hálfleik náðu þeir tangarhaldi á leiknum. Liðið skoraði fjölda marka eftir hraðaupphlaupa í fyrri hálfleik. Þeim fækkaði í seinni hálfleik en þá fékk FH ómetanlegt framlag frá Ásbirni Friðrikssyni sem hvíldi í fyrri hálfleik.

Stjarnan reyndi og reyndi og kom með áhlaup en hafði ekki árangur sem erfiði.

Hverjir stóðu upp úr?

Ágúst Elí var mjög öflugur í fyrri hálfleik og varði þá m.a. tvö vítaköst Stjörnumanna. Gísli Þorgeir Kristjánsson stýrði sóknarleiknum með myndarbrag í fyrri hálfleik og Ásbjörn tók við keflinu í þeim seinni. Þá var Einar Rafn Eiðsson hrikalega öruggur á vítalínunni.

Hjá Stjörnunni fór allt í gegnum Aron Dag. Hann tapaði of mörgum boltum en skoraði samt sjö mörk og gaf átta stoðsendingar. Andri Hjartar Grétarsson var besti leikmaður Garðbæinga í fyrri hálfleik og Lárus Gunnarsson átti ágæta kafla í markinu.

Hvað gekk illa?

Eins og áður sagði var sóknarleikur Stjörnunnar í fyrri hálfleik ekki upp á marga fiska. Hann skánaði í seinni hálfleik en það var ekki nóg.

Gestirnir hefðu líka þegið betri markvörslu. Sveinbjörn Pétursson náði sér engan veginn á strik. Lárus varði vel undir lok fyrri hálfleiks en náði ekki að fylgja því eftir í þeim seinni.

Þrátt fyrir nokkuð öruggan FH-inga tapaði liðið full mörgum boltum. Þá átti Ísak Rafnsson martraðarleik í sókninni. Hann skoraði aðeins eitt mark úr 10 skotum.

Hvað gerist næst?

FH-ingar halda til Slóvakíu á föstudaginn. Daginn eftir mæta þeir svo slóvakísku meisturunum í Tatran Presov í fyrri leik liðanna í 3. umferð EHF-bikarsins. Á miðvikudaginn í næstu viku mætir FH svo Fram í Kaplakrika.

Stjarnan sækir Selfoss heim á fimmtudaginn í næstu viku.

Halldór: Gerðum það sem við þurftum

Eftir tvo tapleiki í röð fögnuðu lærisveinar Halldórs Sigfússonar sigri á Stjörnunni í kvöld. FH var með undirtökin lengst af og vann nokkuð öruggan sigur.

„Við höfðum fulla stjórn á þessum leik en gáfum óþarflega mikið eftir undir lokin. Við gerðum það sem við þurftum en ekki mikið meira en það,“ sagði Halldór eftir leikinn í Kaplakrika í kvöld.

Þrátt fyrir smá vankanta á leik FH var Halldór að vonum sáttur að vera kominn á sigurbraut á nýjan leik.

„Það er virkilega gott og það voru kaflar þar sem við vorum virkilega góðir. Við skoruðum 30 mörk, spiluðum sterka vörn og Ágúst Elí [Björgvinsson] var góður þar fyrir aftan,“ sagði Halldór.

„Við gáfum full mikið eftir í seinni hálfleik. Ég veit ekki hvort það var einbeitingarleysi eða hvað. En heilt yfir er ég sáttur.“

Halldóri fannst FH-ingar gera of mörg tæknimistök í leiknum.

„Í byrjun köstuðum við boltanum frá okkur og við vorum með alltof marga tapaða bolta í þessum leik. Þeir hafa verið of margir í síðustu þremur leikjum. Við þurfum að fækka þeim,“ sagði Halldór.

Einar: Mörg lið hafa bognað og brotnað gegn FH

Þrátt fyrir tapið gegn FH var Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, nokkuð sáttur með frammistöðuna.

„Mér fannst við leysa marga hluti mjög vel. Við misstum síðasta manninn [Ara Magnús Þorgeirsson] í meiðsli í upphitun þannig að við höfum þurft að breyta miklu,“ sagði Einar eftir leik.

„Í fyrri hálfleik vorum við að þreifa fyrir okkur og sjá hvað virkaði og hvað ekki. Mér fannst seinni hálfleikurinn að mestu leyti góður en við vorum sjálfum okkur verstir í þeim fyrri.“

Stjarnan átti góðan lokakafla í leiknum. En hvað vantaði til að nálgast FH enn frekar?

„Við minnkuðum þetta niður í tvö mörk. Það vantaði dass af heppni og smá skynsemi. Við fórum illa með góð færi og vorum klaufar að einhverju leyti. Það jákvæða er þó að við komum okkur í þessa stöðu. Mörg lið hafa bognað og brotnað gegn FH,“ sagði Einar.

Ari Magnús, Egill Magnússon og Stefán Darri Þórsson voru fjarri góðu gamni hjá Stjörnunni í kvöld. Einar segir ekki vitað hvenær þeir snúi aftur á völlinn.

„Það er alveg óljóst. Ég get ekki sagt til um það. Það var óvíst með Aron Dag [Pálsson] hérna í kvöld en hann náði að spila og var stórkostlegur í seinni hálfleik. Við verðum bara að sjá hvað verður,“ sagði Einar að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira