Lífið

Barin með staf af gömlum karli í neðanjarðarlestinni

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Alda nýtur lífsins í New York.
Alda nýtur lífsins í New York. Myndir úr einkasafni
„Ég flutti til New York í byrjun október, aðallega af því að mig hefur alltaf langað til að búa í Bandaríkjunum, en einnig af því að þetta var geggjað tækifæri til að opna Ghostlamp-skrifstofur í Bandaríkjunum,” segir athafnakonan Alda Karen Hjaltalín.

Alda vakti mikla athygli þegar hún hélt fyrirlesturinn Leyndarmálin mín um markaðssetningu, sölu og lífið sjálft í Hörpu þann 19. september síðastliðinn. Stuttu eftir hann pakkaði hún lífinu niður í ferðatösku, kvaddi Ísland og hélt á vit ævintýranna í stórborginni New York. Þar er hún búin að opna skrifstofu íslenska fyrirtækisins Ghostlamp,  sem tengir saman fyrirtæki og svokallaða áhrifavalda á samfélagsmiðlum. 

Fyrsta sem ég verð að spyrja Öldu er hvað hún hafi hugsað þegar hún lenti í New York?



„Vá! Hún er fallegri heldur en ég gat ímyndað mér,” segir Alda um þessa iðandi stórborg sem aldrei sefur. 

Alda er búin að koma sér vel fyrir í New York.Mynd / Úr einkasafni

Táraðist við að borða vegan múffu

Alda býr með parinu Rebekku og Úlfi og dóttur þeirra Þyrí í Greenpoint-hverfinu í Brooklyn.

„Þetta er hreint út sagt æðislegt hverfi,” segir Alda og er himinlifandi með úrval veitingastaða sem bjóða upp á vegan mat, en Alda er vegan.

„Það er meira að segja vegan pítsastaður fyrir mig í fimm mínútna fjarlægð. Það er líka stutt í bæði G og L lestarnar sem ég tek til Manhattan til að fara í vinnuna svo samgönguleiðirnar mínar eru mjög einfaldar og er ég nánast hætt að pæla í því hvar ég er því ég finn það bara. Gæti gert þetta blindandi,” segir Alda en bætir við að það geti verið flókið að rata á nýja staði, utan þægindahringsins. 

„Um leið og ég þarf að fara á nýjan stað þá á ég það stundum til að villast. Það er stundum dulin blessun því oft dett ég inná klikkaða staði sem ég bara verð að prufa. Þannig uppgötvaði ég vegan bakaríið í Soho með gjörsamlega sturluðum möffins. Ég táraðist pínu við að borða þær í fyrsta skipti. Þær voru svo góðar!”

Alda pitchar Ghostlamp á viðburði í New York.Mynd / Úr einkasafni

Valkvíði á kvöldin

Alda segir hversdaginn í New York þjóta hjá.

„Lífið í New York er hundrað sinnum hraðara en lífið í Reykjavík. En ég elska það. Ég er yfirleitt vöknuð sex á morgnana og að koma heim seint um kvöld. Það er alltaf eitthvað að gerast. Það er alltaf einhver nýr til að hitta og ég er í mestu vandræðum með að tvíbóka mig ekki,” segir Alda og þjáist líka af valkvíða yfir því hvernig hún eyðir kvöldunum sínum, enda nóg um að vera í stóra eplinu.

„Það eru svona um það bil 25 hlutir sem mig langar til að skoða eða gera á kvöldin svo ég er alltaf með valkvíða hvert ég á að fara. Einnig keypti ég tólf uppistandsmiða af einhverjum gæja á götunni um daginn. Ég elska uppistönd. Ég veit ekki ennþá hvort að þetta eru alvöru miðar en það kemur bara í ljós næstu helgi,” segir Alda og brosir.

Alda hefur náð langt þrátt fyrir ungan aldur.Mynd / Antonía Lárusdóttir

Barin af gömlum karli

Hvað er það óvenjulegasta sem Alda hefur lent í eftir að hún flutti til New York?



„Ég var barin einu sinni í neðanjarðarlestinni. Gamli karlinn sem barði mig með stafnum sínum í lestinni var ekkert rosa hress. En ég sneri mér bara að honum og spurði hátt og ákveðið hvort ég gæti nokkuð aðstoðað hann. Þá varð hann bara frekar smeykur og lagðist aftur á hliðina og fór að sofa. Reyndar svona sekúndubroti seinna kemur stór maður upp að mér og spyr hvort það sé allt í lagi með mig. Það er það sem ég elska við New York - það eru allir svo fáránlega næs og umhyggjusamir við mig. Enn þá allavega. Ég hef ekki enn þá upplifað þennan týpíska dónalega New York búa. Kannski er ég bara svona extra heppinn,” segir Alda.

En það skemmtilegasta?



„Vá, hvar á ég að byrja?” segir Alda og hlær dátt.

„Ég fór í ekta amerískt kúrekabrúðkaup í Connecticut í lok október. Það var geðveikt. Dansaði línudans, lærði á snöru og allan pakkann. Þessa dagana er ég mikið í Bryant park að drekka „Hot Apple Cider” sem er eiginlega bara upphitaður eplasafi og ég elska það. Uppáhaldsmómentið mitt er samt þegar ég fer á uppáhaldskaffihúsið mitt í hverfinu með eina góða bók. Gæti verið þar að eilífu að lesa og drekka gott lakkrís- og piparmyntute. Það er bara eins og það séu alltaf jólin,” segir Alda.

Saknar þess ekki að skafa bílinn

Þegar ég spyr Öldu hvers hún sakni mest frá Íslandi stendur ekki á svörunum.

„Auðvitað fjölskyldunnar og ástvina. Ég er alein hérna í stórborginni og þó svo að ég sé komin með nýja vini fyrir lífstíð að þá er samt erfitt að vera í burtu frá öllum íslensku vinunum mínum,” segir hún. Að sama skapi þarf hún ekki að hugsa sig tvisvar um þegar ég spyr hana hvers hún saknar ekki frá Íslandi

„Veðursins, kuldans og að skafa bílinn minn.”

Alda fær aðeins að upplifa íslenska veðrið á nýja árinu, en hún heldur námskeið í Hörpu þann 19. janúar sem heitir L.I.F.E. Masterclass.  Hún er að rifna úr spenningi yfir þessu námskeiði.

„Þetta verður að stærsta sem ég hef gert og mun gera í langan tíma, á Íslandi allavega. Ég mun grafa dýpra í allt og einnig fara í samskipti, tilfinningalega greind, empathy tegundir, persónuleikana okkar og lífsjónarhornin. Námskeiðið mun aðallega snúast um lífsverkfæri og svokölluð „Lifehacks” sem ég hef verið að segja frá á Instagram story-inu mínu alla daga. Lifehacks sem fólk getur nýtt sér í lífinu, hvort sem það er í markaðssetningu, sölu, hugleiðslu, persónulegum árangri eða til að ná öllum draumum sínum.  Á námskeiðinu fær fólk bók sem kallast Lífsbiblían en þar verða tugir æfinga og verkfæra auk uppsetningu á dagbók sem munu nýtast fólki út lífið,” segir Alda og bætir við að tilgangurinn sé að fá fólk til að fullnýta líf sitt og njóta þess. Námskeiðið verður á íslensku en nú þegar er byrjað að skipuleggja að ferðast með það um Bandaríkin.

Þessi mynd var tekin af Öldu er hún hélt fyrirlestur í Hörpu í september.Mynd / Úr einkasafni

Kæri eðluheili...

Alda er frá Akureyri en flutti 19 ára gömul til Reykjavíkur til að skapa sér nafn, enda með stóra drauma. Hvaða ráð hefur hún til þeirra sem þora ekki að láta drauma sína rætast?

„Greindu hugsanirnar þínar. Eitt helsta verkfærið sem ég hef verið að kenna, hvort sem það er í fyrirlestrum eða í fyrirtækja- eða einstaklingsráðgjöf er: Lítið sjálfstraust er ekki til.  Málið er að hvort sem þú kallar það lítið sjálfstraust eða óöryggi að þá eru þetta bara hugsanir. Ef við kryfjum þetta nánar, hvernig lýsir lítið sjálfsöryggi sér? Það eru neikvæðar hugsanir sem koma upp hjá okkur. Það ég geti ekki stofnað mitt eigið fyrirtæki af því ég er ekki nógu klár sem dæmi eða ég nenni ekki í þetta partí af því mér finnst ég ekki nógu sæt. Ég gæti aldrei gert þetta af því ég er ekki nógu opin, ég þori ekki að markaðsetja mig og vörumerkið mitt því fólk á ekki eftir að fíla það og svo framvegis,” segir Alda og heldur því fram að þessar hugsanir komi úr heilastöðinni Amygdala, sem Alda kýs að kalla Lizard Brain, eða eðluheila.

„Þessi heilastöð er með eitt markmið: Að lifa af. Hún þrífst af fjórum meginþáttum: kynhvöt, reiði, hefnd og auðvitað, hræðslu. Þessi heilastöð er lífsnauðsynleg ef við lendum í alvarlegu bílslysi, jarðskjálfta, eldgosi og öllum lífshættulegum aðstæðum. Í öllum öðrum aðstæðum eiga þessar hugsanir ekki við. En þær koma samt upp í hugann, því Lizard Brain er alltaf á vaktinni og þær eru háværastar því Lizard Brain er ein elsta heilastöðin okkar,” segir Alda sem notar vissa tækni til að hrista eðluheilann í burtu.

„Ég segi alltaf hátt og skýrt: Kæri Lizard Brain, takk kærlega fyrir hugsanir þínar. Gott að vita að þú virkar vel ef ég skildi nú lenda í einhverju lífshættulegu. En þessar hugsanir eiga því miður ekki við núna. Svo stekk èg af stað og geri það sem mig langar til að gera. Því þetta er ekki sjálfstraustið þitt.”



Komin til að vera

Áður en ég kveð Öldu verð ég að spyrja hana hvort við Íslendingar fáum þessa óskadóttur þjóðarinnar einhvern tímann aftur til frambúðar?

„Ég reikna með að vera í New York fyrir lífstíð. Ég gjörsamlega elska þessa borg og líður loksins eins og ég sé komin heim. Mögulega flyt ég aðeins til Los Angeles inná milli fyrir betra veður en annars er ég kominn til að vera.”


Tengdar fréttir

Varð nítján ára stjórnandi í stóru fyrirtæki í Reykjavík

Alda Karen Hjaltalín var ekki orðin tvítug þegar hún var ráðin markaðsstjóri í stóru fyrirtæki í Reykjavík. Það var ekki haft hátt um ráðninguna vegna aldurs hennar. Nú nokkrum árum seinna er hún sölu- og markaðsstjóri hjá Ghostlamp fyrirtæki sem sérhæfir sig í áhrifavöldum á netinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×