Innlent

Telur brýnt að taka vigtunarmálin fastari tökum

Birgir Olgeirsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra. Vísir/Ernir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun á morgun funda með Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og sjómönnum vegna umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Kveiks í Sjónvarpinu um brottkast í íslenskum sjávarútvegi og hvernig er staðið að vigtunarmálum.

Fundað var í ráðuneytinu í morgun um þessi mál og segir Þorgerður myndina hafa skýrst töluvert eftir þann fund sem muni svo væntanlega skýrast enn frekar þegar fundað verður með hagsmunaaðilum í fyrramálið.

Fjallað um undanskot í Kveik

Í fréttaskýringaþættinum Kveik
voru sýndar myndbandsupptökur af brottkasti úr frystitogaranum Kleifarbergi og rætt við Eyþór Björnsson, forstjóra Fiskistofu, sem sagði stofnunina ekki gæta staðið undir nægjanlegu eftirliti þegar kemur að brottkasti, framhjálöndun og öðrum undanskotum í sjávarútvegi.

Fjallað var sérstaklega um endurvigtun þar sem afli sem er komið með að landi er vigtaður. Var því haldið fram í þættinum að fiskvinnslur stundi það að landa fiski fram hjá vigt með því að skrá hann sem ís.

Aukið gagnsæi mun hjálpa til

Þorgerður Katrín segir í samtali við Vísi að farið verði yfir brottkastið á fundinum með hagsmunaaðilum á morgun. „Og sérstaklega vigtunarmálið sem ég tel mjög brýnt að verði tekið fastari tökum,“ segir Þorgerður.

Með því að birta upplýsingar um ísprósentu fiskvinnsla á vef Fiskistofu sé veitt aðhald að sögn Þorgerðar og segir hún að öll skref sem tekin eru í átt að enn meira gagnsæi muni hjálpa til. „Og veita útgerðum aðhald við að vigta rétt og gera rétt upp,“ segir Þorgerður.

Hún segir ljóst að tregða hafi verið í kerfinu gagnvart þessum vigtunarmálum. „Og kerfið allt saman þarf að taka sig á að mínu mati og þess vegna þurfum við að eiga samtöl og samráð við hagsmunaaðila, stofnanir og sveitarfélög líka.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×