Viðskipti innlent

Séra Jón

Stjórnarmaðurinn skrifar
Fróðlegt var að lesa samtal Geirs H. Haarde og Davíðs Oddssonar sem átti sér stað þann 6. október 2008 eða sama dag og neyðarlögin svokölluðu tóku gildi. Þar ræddu þeir félagar 500 milljóna evra neyðarlánveitingu til Kaupþings, sem samkvæmt seðlabankastjóranum Davíð myndi valda því að bankinn yrði „kominn inn að beini“. Með öðrum orðum, lánveitingin til Kaupþings varð endanlega til þess að tæma gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Enn meiri athygli vekur þó að þeir Davíð og Geir virðast sammála um að ólíklegt sé að lánið fáist greitt til baka, en Davíð lætur hafa eftir sér að orð Kaupþingsmanna um að lánið verði endurgreitt að nokkrum dögum liðnum séu „ósannindi“ eða „óskhyggja“.

Með öðrum orðum virðist Davíð hafa veitt lánið en verið þess fullviss að það fengist aldrei endurgreitt. Við þetta kynni einhver að staldra en í dómum sem fallið hafa eftir hrun hefur mikið verið fjallað um hugtakið umboðssvik, en í einfaldri mynd má segja að það snúist um að binda annan mann, stofnun eða fyrirtæki við löggerning sem viðkomandi myndi annars ekki vilja vera bundinn af.

Nú mætti telja að hugtakinu hafi upprunalega verið ætlað að ná til manna sem stunda slíkt af einbeittum ásetningi. Eftir hrun hefur hins vegar fjölda bankamanna verið varpað í fangelsi á grundvelli þess að þeim hafi „ekki mátt dyljast“ eða að þeir hefðu „mátt vita“ að tilteknar lánveitingar myndu tapast. Algerlega hefur verið skautað fram hjá því að lánveitingum fylgir eðli málsins samkvæmt áhætta.

Ekki verður þó annað skilið af orðum fyrrverandi seðlabankastjóra en að hann hafi verið þess fullviss að lánið væri tapað, en samt haldið sínu striki. Ekki verður auðveldlega séð hvers vegna annað ætti að gilda um seðlabankastjórann, sem höndlar með almannafé, en bankamennina. Samt tók það sérstakan saksóknara einungis viku að hvítþvo Davíð og Geir vegna lánveitingarinnar til Kaupþings.

Nú er bara tvennt í stöðunni. Annaðhvort var Davíð jafn sekur um umboðssvik og bankamennirnir, eða að dómarnir eftir hrun hafa verið á villigötum. Hvað sem því líður er ljóst að Davíð fékk sérmeðferð. Hverju ætli sæti?

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×