Formúla 1

Felipe Massa væntir tilfinningaríkrar keppni í Abú Dabí

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Felipe Massa setur Formúlu 1 hjálminn á hilluna frægu eftir kappaksturinn í Abú Dabí um helgina.
Felipe Massa setur Formúlu 1 hjálminn á hilluna frægu eftir kappaksturinn í Abú Dabí um helgina. Vísir/Getty

Felipe Massa, ökumaður Williams liðsins býst við að keppnin í Abú Dabí um komandi helgi verði tilfinningaþrungin. Keppnin verður bæði síðasta keppni tímabilsins og síðasta keppni brasilíska ökumannsins í Formúlu 1.

Massa ætlaði sér upphaflega að berjast um sæti sitt hjá Williams við þá þrjá ökumenn sem helst þykja koma til greina í dag. Hann hætti svo við það og ákvaða að hætta alfarið keppni í Formúlu 1. Brassinn hefur þó lýst yfir áhuga á að halda áfram kappakstri, hugsanlega í Formúlu E.

Þeir þrír sem nú berjast um sæti Massa hjá Williams eru: Robert Kubica, Pascal Wehrlein og Paul di Resta.

Sjá einnig: Williams þverneitar að búið sé að semja við Kubica.

„Abú Dabí er alltaf góð keppni og þangað er gaman að koma. Fólkið þar elskar Formúlu 1. Umgjörðin í kringum brautina er ein sú besta í heimi. Það eru svo margar veislur í kringum brautina og snekkjur í höfninni, fólk er komið til að skemmta sér og horfa á spennandi keppni,“ sagði Massa í samtali við MotorsportWeek.

„Þetta verður tilfinningaþrungin keppni fyrir mig. Þetta verður mín síðasta keppni hjá Williams og síðasta keppni í Formúlu 1. Ég hlakka til og ég ætla að njóta hvers augnabliks og enda ferilinn á góðum nótum,“ bætti Massa við.


Tengdar fréttir

Felipe Massa hættir í Formúlu 1

Felipe Massa ökumaður Williams liðsins hefur tilkynnt að hann ætli að leggja hjálminn á hilluna frægu eftir að tímabilinu í ár lýkur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.