Erlent

Stefnir allt í kosningar í Þýskalandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. vísir/EPA
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, reynir enn að mynda meirihlutastjórn þar í landi þrátt fyrir að slitnað hafi upp úr stjórnarmyndunarviðræðum flokks hennar, Kristilegra demókrata, við Frjálslynda demókrata og Græningja.

Forsetinn Frank-Walter Steinmeier hefur fundað með formönnum allra flokka á þingi í von um að leysa úr stjórnarkreppunni sem upp er komin en eina mögulega meirihlutamynstrið fyrir utan það sem nefnt var hér á undan er samsteypustjórn Kristilegra demókrata og Jafnaðarmannaflokksins. Flokkarnir unnu saman á síðasta kjörtímabili.

Reyndar væri mögulegt að mynda meirihluta með aðkomu þjóðernishyggjuflokksins AfD en aðrir flokkar hafa útilokað samstarf við AfD þannig að sá möguleiki þykir ekki líklegur.

Jafnaðarmenn vilja hins vegar ekki vinna aftur með Kristilegum demókrötum. Flokkurinn missti fylgi í nýafstöðnum kosningum og kanslaraefnið Martin Schulz hefur sagt að kjósendur hafi hafnað Stórbandalaginu svokallaða. „Við erum ekki eitthvert neyðaruppfyllingarefni fyrir Merkel,“ sagði Andrea Nahles, formaður þingflokks Jafnaðarmanna, í gær.

Því er ólíklegt að Merkel takist að mynda meirihlutastjórn. Þá er því haldið fram að henni þyki minnihlutastjórnir ekki koma til greina og líklegt er því að boðað verði til kosninga á ný. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×