Handbolti

Ásgeir Örn og félagar sluppu með skrekkinn á móti botnliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með Nimes.
Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með Nimes. Vísir/Getty
Ásgeir Örn Hallgrímsson og félagar hans í franska 1. deildar liðinu Nimes sluppu með skrekkinn þegar að þeir mættu botnliði Massy á heimavelli í kvöld.

Nimes vann tveggja marka sigur, 27-25, eftir æsispennandi lokamínútur. Heimamenn voru 22-19 þegar fimmtán mínútur voru eftir og allt í fínum málum.

Þá skoraði botnliðið fjögur mörk í röð og komst yfir, 23-22, en liðin skiptust svo á að skora þar til undir lokin þegar að Nimes komst í 26-25 og kláraði leikinn svo með marki úr vítakasti þegar að tíu sekúndur voru eftir, 27-25.

Ásgeir Örn átti tvö skot á markið í kvöld en hvorugt þeirra gekk þannig að hann lauk leik án þess að skora. Hann hefur verið meiddur að undanförnu en gott að vita að hann er allur að koma til.

Nimes er með 18 stig í efsta sæti deildarinnar, stigi á undan Montpellier, eftir tíu umferðir. Liðið er búið að vinna níu leiki og tapa aðeins einum.

Sömu sögu er aftur á móti ekki að segja um hitt Íslendingaliðið, Cesson-Rennes. Það tapaði á heimavelli, 30-22, á móti Chambéry í kvöld og er án sigurs en með tvö stig í neðsta sæti deildarinnar.

Geir Guðmundsson skoraði tvö mörk úr fimm skotum fyrir Cesson-Rennes en Guðmundur Hólmar Helgason er meiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×