Innlent

Pólskur maður áfram í gæsluvarðhaldi grunaður um innflutning á sterkum fíkniefnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 25. ágúst.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 25. ágúst. Vísir/Anton Brink
Hæstiréttur staðfesti úrskurð um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir pólskum manni sem er sterklega grunaður um aðild á innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum til landsins. Hann þarf því að sitja áfram í varðhaldi til 14. desember.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. nóvember sem Hæstiréttur staðfestir kemur fram að maðurinn sé búsettur hér á landi. Grunur leiki á að hann hafi átt að taka á móti þremur mönnum sem komu frá Póllandi og vera þeim innan handa með aðstöðu hér á landi í tengslum við stórtækt smygl á amfetamínvökva.

Lögreglan hafi fengið upplýsingar frá erlendum tollayfirvöldum um að grunur léki á að fíkniefni væri að finna í bifreið um borð í ferju á leið til Íslands frá Danmörku. Við komuna hingað í ágúst var bifreiðin skoðuð og fannst amfetamínvökvi leka úr bílnum.

Í kjölfarið var sími mannsins sem fylgdi bílnum með ferjunni hleraður. Í Reykjavík hitti hann þrjá menn, þar á meðal þann sem nú situr í gæsluvarðhaldi. Tveir mannanna höfðu komið með flugi frá Póllandi. Allir fjórir voru handteknir.

Við rannsókn á bifreiðinni hafi fundist 1.238 millilítrar af amfetamínvökva í framhöggvara hennar. Maðurinn neitar sök í málinu. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 25. ágúst á grundvelli almannahagsmuna.

Meint brot mannsins varða allt að tólf ára fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×