Fótbolti

Samningur Alberts og PSV nær nú fram á mitt sumar 2019 | „Bara tímaspursmál“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson fagnar marki með 23 ára liði PSV.
Albert Guðmundsson fagnar marki með 23 ára liði PSV. Vísir/Getty
Albert Guðmundsson verður áfram hjá PSV Eindhoven en félagið nýtti sér ákvæði í samningnum hans í gær og framlengdi hann um eitt ár eða til sumarsins 2019.

Þetta kemur meðal annars fram í frétt í heimasíðu Eindhovens Dagblad sem er staðarblaðið í Eindhoven.

Albert hefur farið á kostum með unglingaliði PSV og skoraði 18 mörk í síðustu 18 leikjum sínum í hollensku b-deildinni.

Tækifærin hafa hinsvegar ekki verið mörg með aðalliðinu en hann hefur þó verið að fá nokkrar mínútur á þessu tímabili.

Albert er staðráðinn að vinna sér sæti í aðalliðinu eins og kemur fram í viðtali við hann í Voetbal International. Umboðsmaður hans tekur líka undir þetta.

Albert er meðal annars í samkeppni við Steven Bergwijn og Brasilíumaninn Mauro Junior sem er aðeins átján ára gamall. Phillip Cocu, þjálfari PSV, hefur notað Bergwijn meira á kantinum.

Steven Bergwijn er með 2 mörk og 3 stoðsendingar á 567 mínútum með aðalliði PSV í hollensku deildinni. Mauro Junior hefur spilaði í 63 mínútur og Albert hefur komið þrisvar inná en aðeins þó spilað í fimm mínútur samanlagt.

„Albert ætlar að vera áfram hjá PSV. Hann er ekki orðinn fullgildur leikmaður með aðalliðinu en hann æfir daglega með liðinu. Það er bara tímaspursmál hvenær hann verður það,“ sagði Laurens Melotte, umboðsmaður Albert, í viðtali við ED.nl.

„Eftir þetta tímabil er möguleiki á því að nokkrir sóknarmenn PSV yfirgefi félagið sem ætti að búa til tækifæri fyrir Albert. Vonandi tekur hann þau skref sem hann þarf að taka og nýtir tækifærin sem koma. Við trúum því ennþá á þessari stundu að Albert eigi eftir að eiga frábæran feril hjá PSV,“ sagði Melotte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×