Viðskipti innlent

Sveitarfélög verða fyrir tekjutapi vegna rangrar skráningar Airbnb íbúða

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Tapaðar tekjur Reykjavíkurborgar gætu numið hátt í milljarð vegna rangrar skráningar.
Tapaðar tekjur Reykjavíkurborgar gætu numið hátt í milljarð vegna rangrar skráningar. Vísir/Anton Brink
Minnihluti íbúða sem leigðar eru út á Airbnb í lengur en 90 daga eða fyrir meira en tvær milljónir króna eru með tilskilin leyfi og skráningu í samræmi við lög og reglur. Þetta kemur fram í nýrri greiningu hagdeildar Íbúðalánasjóðs.

Tölurnar benda til þess að hið minnsta séu 1.400 Airbnb leiguíbúðir rangt skráðar. Fyrirtækið Airdna birti gögn sem benda á að um 2.600 íbúðir og 900 stök herbergi hafi verið í svo mikilli útleigu að um væri að ræða atvinnurekstur samkvæmt gildandi lögum og reglum. Þær höfðu verið í útleigu í meira en 90 daga eða skilað meira en 2 milljónum króna í leigutekjur af Airbnb.

Kröfur eru til staðar að rekstrarleyfi þurfi fyrir gistingu og þarf íbúðin að vera samþykkt af byggingarfulltrúa sem atvinnuhúsnæði. Við slíka úttekt hækka fasteignagjöld svo um munar.

Þrátt fyrir það eru einungis 1.200 Airbnb leiguíbúðir af um 2.600 skráðar sem atvinnuhúsnæði. Ljóst er að sveitarfélög verða af verulegum tekjum árlega vegna rangrar skráningar leiguíbúða. Þetta sést best sé litið til Reykjavíkur en miðað við fyrstu níu mánuði ársins voru yfir 1.500 íbúðir í svo mikilli leigu að um væri að ræða atvinnurekstur. Einungis 385 íbúðir voru með rekstrarleyfi í flokkum I og II og aðeins 341 íbúð skráð sem atvinnuhúsnæði. Tapaðar tekjur Reykjavíkur gætu því numið hátt í milljarð ef miðað er við meðalfasteignamat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×