Skoðun

Er ekkert að marka leikreglur lýðræðisins?

Gísli Sigurðsson skrifar
Enn hefur ekki verið svarað kröfu frá Verndarsjóði villtra laxastofna, NASF, sem Orri heitinn Vigfússon sendi til verkefnisstjórnar rammaáætlunar 27. júlí 2016. Krafan fólst í að tillögur um að setja virkjanir í neðri hluta Þjórsár í nýtingarflokk yrðu dregnar til baka. Ástæða kröfunnar var sú að tillaga verkefnisstjórnar hafði byggt á ófullnægjandi forsendum og haft að engu þau skilyrði sem sett höfðu verið frá upphafi um takmörkuð umhverfisáhrif virkjananna. Erindi NASF var einnig sent til Skipulagsstofnunar þann 28. september 2015 og til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Nefndin hefur enn ekki tekið afstöðu til málsins.

Í málflutningi sínum benti Orri á veigamiklar rangfærslur í málsmeðferð verkefnisstjórnar. Frumforsenda fyrir því að hugmyndum um virkjanir í neðri hluta Þjórsár var hleypt af stað var sú að laxfiskum í ánni stafaði engin hætta af virkjununum. Í hinu lögboðna umsagnarferli kom fram að mikil óvissa væri uppi um afdrif laxfiska í Þjórsá. Alþingi ákvað því að setja þessar virkjanir í biðflokk uns þeirri óvissu væri eytt. Verkefnisstjórnin skipaði þá sérstakan faghóp 22. október 2013 undir forystu Skúla Skúlasonar, líffræðings: Hilmar Malmquist, Sigurð Má Einarsson og Sigurð S. Snorrason. Þessi hópur komst að þeirri ótvíræðu niðurstöðu að engri óvissu hefði verið eytt um afdrif laxfiska í Þjórsá ef af virkjunum í neðri hluta árinnar yrði.

Hópurinn tók síðan upp hjá sjálfum sér að skipta Þjórsá upp í náttúruleg og ónáttúruleg búsvæði laxfiska og réttlæta þannig að stinga upp á tilraun með Hvammsvirkjun til að sjá hvernig til tækist. Þessi uppástunga faghópsins var utan verksviðs hans og breytti engu um niðurstöðuna. Uppástungan var þó hent á lofti og affærð og misnotuð með ósannindum í málflutningi verkefnisstjórnar rammaáætlunar og Landsvirkjunar, sem lugu því beinlínis í Greinargerð verkefnisstjórnar rammaáætlunar til Alþingis 21. mars 2014 að faghópurinn hefði komist „að þeirri niðurstöðu að óvissa varðandi áhrif Hvammsvirkjunar á laxfiska hefði minnkað nægjanlega til að réttlætanlegt væri að færa virkjunina í nýtingarflokk á nýjan leik“ – og því væri réttlætanlegt að ráðast í Hvammsvirkjun. Þessi blekkingaleikur leiddi Skipulagsstofnun og Alþingi á villigötur og dró athyglina frá aðalatriðum málsins.

Við hjá NASF mótmæltum þessum ósannindum verkefnisstjórnar strax en „svar“ hennar með gögnum málsins til Alþingis var svohljóðandi: „Því er mótmælt harðlega að Hvammsvirkjun verði reist sem eins konar tilraunastofa til að kanna virkni mótvægisaðgerða í virkjunum neðar í ánni.

Verkefnisstjórn telur að í þessum umsögnum komi ekki fram nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til að endurskoða fyrri afgreiðslu verkefnisstjórnarinnar.“

Þetta „svar“ verkefnisstjórnar tekur ekki tillit til þess að það er ósatt að faghópurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að óvissu hafi verið eytt. Það er erfitt að koma með nýjar upplýsingar til að hrekja það. Það stendur og blasir við í skýrslu faghópsins.

Hin upphaflegu ósannindi um niðurstöðu faghópsins gengu aftur í allri meðferð málsins og voru síðast ítrekuð í lokaskýrslu Landsvirkjunar, sem Landsvirkjun lagði fyrir Skipulagsstofnun eftir að allar athugasemdir höfðu komið fram. Skipulagsstofnun vann sína umsögn vandlega og af fagmennsku, miðað við fyrirliggjandi forsendur, en varaðist ekki þær lygar sem voru bornar fyrir hana.

Eftir stendur að niðurstaða hins óháða faghóps, sem falið var að leggjast yfir fyrirliggjandi gögn, var að óvissu hefði ekki verið eytt um afdrif laxfiska í Þjórsá. Sú leið sem faghópurinn nefndi um að hægt væri að greina á milli náttúrulegra og ónáttúrulegra búsvæða í Þjórsá er ekki í boði. Við mat á umhverfisáhrifum er ekki í boði að ímynda sér hugsanleg áhrif á umhverfið eins og það var á ótilgreindum tíma í fortíðinni, til dæmis við landnám áður en maðurinn hóf að láta til sín taka í umhverfinu á Íslandi. Fiskvegurinn við fossinn Búða hefur nú í hartnær mannsaldur opnað laxfiskum gönguleið á frjósöm búsvæði í Þjórsá þar sem Þorbjörn laxakarl nam land í öndverðu. Stiginn er því fyrir löngu orðinn hluti af umhverfinu og þeir fiskar sem um hann ganga eru á engan hátt ónáttúrulegri en aðrir fiskar.

Málatilbúnaðurinn um virkjanir í neðri hluta Þjórsár byggist á rangfærslum og lygum sem eru nú notaðar til að reyna að ganga enn lengra og leggja til að allar virkjanir í neðri hluta Þjórsár verði færðar í nýtingarflokk.



Sú ótvíræða niðurstaða stendur óhögguð að engri óvissu um afdrif laxfiska í Þjórsá hefur verið eytt. Og það er sú niðurstaða sem á með réttu að liggja til grundvallar endanlegum tillögum í málinu – ef eitthvað er að marka ákvarðanir stjórnvalda.

Í þessu sambandi má benda á að ESA sendi frá sér álit 4. maí 2016 (https://www.eftasurv.int/media/esa-docs/physical/792444.pdf) um að hér á landi hefði löggjöfin ekki verið aðlöguð tilskipunum ESB sem veita almenningi og hagsmunaaðilum vernd fyrir umhverfisárásum öflugra fyrirtækja sem starfa í skjóli stjórnvalda. ESA telur að tilskipun Evrópusambandsins frá 2011/92/EU um hvernig staðið skuli að mati á umhverfisáhrifum framkvæmda hafi ekki verið innleidd hér á landi en henni sé einmitt ætlað að verja rétt einstaklinga og samfélagsins alls fyrir skaðlegum áhrifum af umsvifum athafnamanna eða ríkisins – og tryggja að tekið sé lögmætt og rökrétt tillit til sjónarmiða umhverfissinna og hagsmunaaðila.

Verkefnisstjórn rammaáætlunar og Landsvirkjun affærðu og lugu til um niðurstöðu faghópsins frá 4. nóvember 2013 um að engri óvissu hefði verið eytt um afdrif laxfiska í Þjórsá, ef af virkjunum yrði. Þá hefur verkefnisstjórnin aldrei svarað fram komnum athugasemdum með öðru en ofangreindum útúrsnúningi um að ekki hafi komið „fram nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til að endurskoða fyrri afgreiðslu verkefnisstjórnarinnar“. Það eru því engin málefnaleg rök fyrir tillögum verkefnisstjórnar um að færa virkjanir í neðri hluta Þjórsár í nýtingarflokk. Fái málsmeðferð af þessu tagi að standa er ekkert að marka þær leikreglur sem lýðræðinu eru settar hér á landi í umhverfismálum.

 

Höfundur er íslenskufræðingur.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×