Erlent

Berlusconi gegn ítalska ríkinu í Strassborg

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Silvio Berlusconi er orðinn 81 árs.
Silvio Berlusconi er orðinn 81 árs. Vísir/EPA
Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hefur sótt ítalska ríkið til saka vegna banns sem hann hlaut sem felur það í sér að hann má ekki gegna opinberu starfi. Málið verður tekið fyrir hjá Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg. Sky News greinir frá.

Berlusconi, sem gegndi embætti forsætisráðherra Ítalíu fjórum sinnum, segir bannið vera ólögmætt og leitar réttar síns.

Lögin heita „Severino Decree“ og eru nefnd eftir ítölskum dómsmálaráðherra. Þau fela það í sér að einstaklingar sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar í meira en tvö ár mega ekki gegna opinberu starfi.

Berlusconi, sem í dag er 81 árs, var dæmdur fyrir skattsvik árið 2012 og hlaut hann fjögurra ára dóm í fangelsi. Dómurinn var síðar mildaður og varð að lokum eins árs samfélagsþjónusta. Auk þess var hann sýknaður árið 2013 þegar hann var ákærður fyrir að hafa greitt fyrir vændi með stúlku undir lögaldri.

Ástæðan fyrir því að Berlusconi leitar réttar síns er sú að stjórnmálaafl hans, Forza Italia, var hluti af hægriflokkum sem sigruðu sveitarstjórnarkosningar á Sikileyjum.

Forsætisráðherrann fyrrverandi gaf það út hann hefði áhuga á að leiða flokkinn í þingkosningunum næsta vor, og hyggst því leita til Mannréttindadómstóls Evrópu til þess að láta dæma bannið ólögmætt.

„Ég mun vera á vellinum, hvort sem það er sem fyrirliði eða þjálfari,“ er haft eftir Berlusconi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×