Skoðun

Eru allir jafnir fyrir lögum?

Ragnar Halldór Hall skrifar
Samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Nýleg dæmi sýna að verulega skortir á það hér á landi að eftir þessu sé farið.

Þegar Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE) var lögfestur hér á landi árið 1994 og nokkur helstu efnisatriði hans í kjölfarið tekin upp í stjórnarskrána var því almennt fagnað af þeim sem láta sig slík málefni einhverju varða. Staðreyndin er hins vegar sú að erfiðlega hefur gengið að fá dómstóla og ákæruvald hér á landi til að fara eftir þessum reglum þegar á hefur reynt.

Í september sl. gekk dómur í Hæstarétti þar sem ákvæði MSE um bann við tvöfaldri refsingu og tvöfaldri málsmeðferð út af sama atviki var til sérstakrar umfjöllunar. Hér var mikið í húfi, því að Mannréttindadómstóll Evrópu hafði fyrr á þessu ári komist að niðurstöðu um að brotið hefði verið á tveimur mönnum hér á landi með dómi Hæstaréttar í samkynja máli. Hæstiréttur ákvað að sjö dómarar skyldu dæma í þessu máli. Allir sjö dómararnir höfðu sakfellt menn í samkynja málum áður, en nú skyldi verða til nýtt dómafordæmi til framtíðarbrúks. Niðurstaðan er öllum kunn – sex dómarar af sjö fóru ákveðna hjáleið framhjá kjarna málsins og kváðu upp dóm sem er í samræmi við fyrri afstöðu réttarins.

Þetta nýja fordæmi Hæstaréttar hefur engu að síður leitt til þess að ákæruvaldið hefur ákveðið að fylgja ekki eftir refsikröfum í allmiklum fjölda mála sem voru til meðferðar á þeim tíma sem dómur Hæstaréttar gekk í september. Jafnframt hefur ákæruvaldið ákveðið að fylgja öðrum samkynja málum eftir fyrir dómi og hafa þar uppi ítrustu refsikröfur. Af dæmum sem undirritaður hefur séð virðist það ráða ákvörðun ákæruvaldsins í þessum málum, að hafi sakborningur ákveðið að skjóta ágreiningi um skattskyldu til yfirskattanefndar og ekki fengið álagningu fellda niður þar skuli hann fá að svara til saka fyrir dómi líka.

Jafnræðisreglu ekki fylgt

Í þessum tilvikum er augljóst að áðurnefndri jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar er ekki fylgt. Meðan reglunni um bann við tvöfaldri refsingu er fylgt gagnvart sumum eru aðrir sóttir til saka fyrir dómi án tillits til reglunnar. Hér er ekki um tilviljanir að ræða, heldur ákvarðanir sem teknar eru að yfirlögðu ráði.

Ég skora á embætti héraðssaksóknara að birta hið fyrsta opinberlega upplýsingar um eftirfarandi:

Hve mörg mál voru í biðstöðu hjá embættinu meðan beðið var dóms í hæstaréttarmálinu nr. 283/2016? Í hve mörgum þeirra hafði sakborningur borið ágreining um skattskyldu undir yfirskattanefnd?

Í hve mörgum þessara mála hafði verið gefin út ákæra og hve mörg voru á rannsóknarstigi hjá embættinu?

Hve mörg málanna sem ákært hafði verið í hafa verið eða stendur til að fella niður af ákæruvaldinu? Í hve mörgum þeirra hafði sakborningur borið ágreining um skattskyldu undir yfirskattanefnd?

Hve mörg málanna sem voru til rannsóknar hjá embættinu hafa verið felld niður? Í hve mörgum þessara mála hafði ágreiningur um skattskyldu verið borinn undir yfirskattanefnd?

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×